Félagsvísindasvið

Stúdentaráðsliðar


Image

1. Jóna Þórey Pétursdóttir – Lögfræði

Image

2. Vaka Lind Birkisdóttir – félagsfræði

Image

3. Róbert Ingi Ragnarsson – stjórnmálafræði

Image

4. Kristrún Helga Valþórsdóttir – viðskiptafræði

Varamenn


Image

Marinó Örn Ólafsson – hagfræði

Image

Jóna Ástudóttir – mannfræði

Image

Áslaug Ýr Hjartardóttir – viðskiptafræði

Image

Júlía Sif Liljudóttir – viðskiptafræði


Stefnumál


Próf tekin á tölvur á Félagsvísindasviði
Röskva gerir kröfu um að innleitt sé kerfi sem gerir nemendum kleift að taka öll próf á eigin tölvu. Óásættanlegt er að jafn fornir kennsluhættir og handskrifuð próf séu enn við lýði. Röskva sækist eftir bættum kennsluháttum og nútímalegu námsmati og eru rafpróf fyrsta skrefið til að ná þeim markmiðum. Auk þess er það umhverfisvænni kostur.

Útiloka leiðir fyrir kennara til að mismuna
Með prófnúmerum er hægt að tryggja jafna stöðu nemenda gagnvart kennara þegar farið er yfir próf og verkefni. Samkvæmt reglum Háskólans á meginreglan að vera notkun prófnúmera. Séu prófnúmer tekin upp er hægt að komast hjá geðþóttaákvörðunum kennara og hentisemi við einkunnagjöf. Vegna fyrirhugaðrar samræmingar á skipulagi Félagsvísindasviðs er kjörið tækifæri til að þrýsta enn frekar á notkun prófnúmera innan allra deilda. Þá telur Röskva brýnt að möguleg brot og mismunun gagnvart minnihlutahópum verði rannsökuð ítarlega.

Jafnrétti, kynbundið áreiti og kynferðislegt ofbeldi
Upplýsa þarf nemendur um úrræði innan Háskólans á borð við Fagráðið en í kjölfar #MeToo byltingarinnar er ljóst af umræðunni að breytinga er þörf. Röskva kallar eftir aukinni jafnréttisfræðslu og upplýsinga um úrræði. Auka þarf sýnileika femínískra viðhorfa innan Háskólans og þar er Félagsvísindasvið ekki undanskilið.

Virða tímamörk
Kennurum ber að skila einkunnum innan þeirra tímamarka sem koma fram í reglum Háskólans nr. 569/2009. Röskva gerir þá kröfu til kennara að þeim reglum sé fylgt og vill vekja athygli nemenda á þeim. Auk þess vill Röskva að sömu tímamörk gildi um einkunnaskil vegna verkefna og prófa yfir önnina.

Aðstæður nemenda
Röskva vill lagfæra innstungur innan bygginga Félagsvísindasviðs, sérstaklega á Háskólatorgi, og fjölga fjöltengjum. Þá ættu tómar stofur að vera gerðar aðgengilegar nemendum enn frekar.

Hópavinnuaðstaða
Röskva vill bæta aðgengi að hópavinnuaðstöðum og vill benda á að nemendur geta fengið stofur að kostnaðarlausu til afnota með því að senda póst á kennslustofur@hi.is. Fyrirhugað endurskipulag á húsnæði Félagsvísindasviðs þar sem þjónustuborðið er nú, gefur tilefni til að útbúa rými til hópavinnu.

Bætt lesrými
Nauðsynlegt er að skilrúm á lesstofum grunnnema í Gimli og á Háskólatorgi sé hækkað. Röskva krefst þess að Háskólinn komi til móts við framlag stúdentahreyfinganna í sviðsráði Félagsvísindasviðs þegar keyptar voru sessur á lesstofur. Einnig þarf að bæta við borðum í Odda og á Háskólatorgi.

Opnara á hurð lesstofurýmis í Gimli
Röskva krefst þess hurðaopnari á lesstofurými í Gimli verði komið fyrir hið snarasta. Einnig þarf að bæta aðgengi að öðrum lesstofum.

Flokkun innan bygginga Félagsvísindasviðs
Flokkun á rusli er verulega ábótavant innan bygginga Félagsvísindasviðs og bygginga sem Félagsvísindasvið sækir. Til dæmis þarf að koma upp aðstöðu fyrir tóma pizzakassa og lífrænum tunnum á fleiri stöðum.

Almenn lögfræði og LÍN
Núgildandi fyrirkomulag LÍN veldur því að nemendur sem standast ekki lokapróf í Almennri lögfræði í jólaprófum fá ekki greidd námslán þar sem Almenn lögfræði er 18 ECTS einingar. Vegna einingafjölda Almennrar lögfræði er það oft eini áfanginn sem nemendur þreyta próf í um jól. Röskva mun beita LÍN þrýstingi til þess að veita undanþágu svo að nemendur sem þurfa að taka sjúkra- eða endurupptökupróf í Almennri lögfræði fái námslán og geti stundað nám sitt áfram.

Upptökur námsefnis og fyrirlestra
Nauðsynlegt er að allt námsefni sem er til prófs sé aðgengilegt öllum nemendum. Efni sem kemur aðeins fram í fyrirlestrum er oft og tíðum til prófs og því verður jafnrétti til náms aðeins fullnægt með upptöku fyrirlestra. Félagslegar aðstæður nemenda eiga ekki að hamla nemendum til að stunda nám á háskólastigi. Nú eru möguleikar til staðar fyrir kennara til að nýta tækni til upptöku fyrirlestra og gerir Röskva kröfu um að þeir möguleikar séu nýttir.

Þjónustuborð
Sviðsráð Félagsvísindasviðs sendi inn beiðni um að Þjónustuborðið í Gimli yrði bætt og tók þannig þátt í að ýta undir þær breytingar sem væntanlegar eru. Þó að þetta hafi verið samþykkt er langt í land og brýnir Röskva mikilvægi þess að sviðsráð taki þátt í að tryggja að þjónusta við nemendur verði sem best.

Fulltrúaráð
Röskva vill bæta tengsl sviðsráðs Félagsvísindasviðs við fulltrúa nemenda innan allra deilda á sviðinu. Því hefur hafist vinna við endurstofnun fulltrúaráðs. Í fulltrúaráði væru fulltrúar nemendafélaga og nemendur sem sitja deildarfundi sinnar deildar. Með þessu móti skapast vettvangur fyrir bein samskipti milli sviðsráðs og nemenda. Stefnt er á að þeirri vinnu ljúki á tímabilinu.

Bættir kennsluhættir
Að frumkvæði Röskvu hefur sviðsráð Félagsvísindasviðs skrifað lista yfir kröfur um bætta kennsluhætti á sviðinu. Nú þegar hefur hafist vinna við að kynna verkefnið innan allra deilda sviðsins. Fyrir lok starfsársins verður verkefnið lagt fyrir kennslunefnd og stjórn sviðsins.

Kynjafræði
Röskva hefur undanfarin ár unnið að því að kynjafræði verði gerð að aðalgrein til 120 ECTS eininga í samstarfi við kynjafræðikennara stjórnmálafræðideildar. Í haust var stofnuð nefnd til þess að skoða möguleikann á þverfaglegu samstarfi milli Félags-, Hug- og Menntavísindasviðs. Röskva mun halda áfram að vinna að þessu þangað til markmiðinu er náð.

Sjúkra- og upptökupróf
Eftir harða baráttu voru sjúkra- og upptökupróf sett fyrir í janúar á Verkfræði- og náttúruvísindasviði í stað þess að vera sett fyrir í byrjun sumars. Stjórn Félagsvísindasviðs ákvað að taka fyrirkomulagið til umræðu þegar tveggja ára reynsla væri komin á töku sjúkra- og upptökuprófa í byrjun janúar. Nú eru tvö ár liðin og mun Röskva ganga á eftir því að sama fyrirkomulag verði innleitt á Félagsvísindasviði.

Prófbankar
Samkvæmt upplýsingalögum hafa nemendur rétt á því að fá aðgang að gömlum prófum sé óskað eftir því. Fyrir síðustu tvær prófatíðir hefur formaður sviðsráðs Félagsvísindasviðs sent tölvupóst á allar deildir sviðsins til þess að ítreka þessar reglur og krefjast þess að þessu sé fylgt innan allra deilda. Röskva vill koma því á framfæri að það er ólíðandi að kennarar standi í hótunum við nemendur um að prófin verði erfiðari ef gömul próf verða birt.

Kennslukannanir og hagsmunafulltrúar
Röskva vill beita sér áfram fyrir endurskoðun á tilhögun kennslukannana og hefur hafist vinna í samstarfi við háskóla í Bergen þess efnis. Nemendur eiga að vera upplýstir um niðurstöður kennslukannana. Röskva telur til dæmis að hægt sé að virkja hagsmunafulltrúa innan deilda Félagsvísindasviðs og þeir gegnt hlutverki miðlara á niðurstöðum kannanna.

Aðgengi fyrir alla - aðgengi að lesrýmum
Nú þegar hefur fengist samþykkt að bæta skuli aðgengi að lesstofunni í Gimli með því að koma fyrir hurðaropnara á hurð lesstofunnar. Röskva mun þrýsta á að þessu atriði verði hrint í framkvæmd hið fyrsta. Röskva vill tryggja aðgengi allra að byggingum háskólasvæðisins, í samræmi við núgildandi jafnréttisstefnu Háskólans. Til dæmis er aðgengi fyrir hreyfihamlaða stúdenta víða ábótavant sem samræmist ekki Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Röskva vill að Háskólinn sé fyrirmynd hvað aðgengismál varðar. Margt þarf að gera til viðbótar til þess að bæta aðstöðu og aðgengi fyrir alla að lesstofum. Sem dæmi má nefna að koma fyrir borðum sem hægt er að hækka og lækka og koma upp lestæki fyrir sjónskerta stúdenta í lesrýmið í Gimli.

Hljóðlát tölvustofa
Í byrjun starfsársins fékk sviðsráðið beiðni frá nemanda um að settar yrðu reglur um vinnufrið í a.m.k. eina tölvustofu í byggingu Félagsvísindasviðs. Þetta væri gert sérstaklega til að koma til móts við nemendur, t.d. þá sem glíma við ADHD. Settir voru upp miðar þess efnis í tölvustofunni á 1. hæð í Odda og Gimli.

Sjálfsali í Lögberg
Lengi hafa laganemar og aðrir sem sækja tíma í Lögberg óskað eftir sjálfsala til að ná sér í hressingu í flýti, án þess að þurfa að fara út úr húsi í íslensku veðráttuna. Nú er aftur kominn sjálfsali í Lögberg, að frumkvæði Röskvu á félagsvísindasviði, á fyrstu hæð við L-102.

Sessur á lesstofur í Gimli
Röskva vill stuðla að bættri lesaðstöðu fyrir nemendur. Þar sem ekki fékkst fjármagn frá háskólanum lagði Röskva upp með að stúdentahreyfingarnar í sviðsráði Félagsvísindasviðs stæðu að kaupum á sessum á lesstofurnar í Gimli. Sessunum hefur nú verið komið fyrir þar.

Fjármögnun Félagsvísindasviðs
Röskva beitti sér fyrir auknum fjárframlögum til Félagsvísindasviðs á liðnu ári. Eftir herferðir Stúdentaráðs hefur fjármagn til Félagsvísindasviðs hækkað um rúmlega 65.600.000 kr. frá fyrra ári og reikniflokkur Félags- og Mannvísinda hækkaði um 46.1% milli ára.

Tveir fulltrúar nemenda í stað eins í stjórn Félagsvísindasviðs
Röskva vill styrkja rödd stúdenta innan stjórnar Félagsvísindasviðs enn frekar. Það myndi gera sviðsráði auðveldara að koma áherslum stúdenta til framkvæmda innan sviðsins, í samráði við sviðstjórnina.