Alþjóðasamstarf

Alþjóðafulltrúi SHÍ
Erlendir nemar við Háskóla Íslands skipa fjölbreyttan hóp en aðeins fjórðungur þeirra eru skiptinemar. Hins vegar styður Háskóli Íslands nær eingöngu við bakið á grunn- og skiptinemum, þar sem upplýsingar og stuðningur miðast að þeim, með þeim afleiðingum að stóran hóp erlendra nema skortir utanumhald og aðstoð. Þessu vill Röskva breyta. Röskva krefst þess að stöðu Alþjóðafulltrúa verði bætt við á Réttindaskrifstofu SHÍ og þar með tryggja trúnaðarmann erlendra stúdenta sem mun veita þeim þá hagsmunagæslu sem þeir eiga skilið.

Möguleikar skiptináms
Skiptinám er mikilvæg leið til þess að að víkka sjóndeildarhring stúdenta. Röskva vill að nemendur allra deilda Háskólans hafi kost á því að fara í skiptinám erlendis. Fáir stúdentar fara í nám erlendis frá Háskóla Íslands. Röskva hvetur Háskólann til að kynna betur möguleika til skiptináms og hvetja alla til að fara í skiptinám, alveg óháð stöðu, t.d. barnafjölskyldur. Til dæmis væri hægt að auka aðstoð í formi hærri styrkja.

Aukin tengsl við erlenda háskóla
Röskva telur að nám erlendis geti spilað mikilvægt hlutverk í námsferli nemenda og hvetur Háskólann til að auka tengsl við erlenda skóla; bæði með kennara- og nemendaskiptasamningum. Röskva vekur máls á því að þetta eigi sérstaklega við um allt framhaldsnám hjá Háskóla Íslands. Röskva vill áframhaldandi samstarf Stúdentaráðs Aurora og SHÍ með það að markmiði að bæta þjónustu við stúdenta og efla starf SHÍ.