Fjölskyldumál

RÖSKVA VILL HÆRRI MÓTFRAMLÖG SVEITARFÉLAGA TIL LEIKSKÓLA

Röskva vill að allir stúdentar HÍ fái sömu niðurgreiðslu af leikskólagjöldum FS, óháð því hvar lögheimili þeirra er. Eins og staðan er núna er töluverður munur á niðurgreiðslu á leikskólagjöldum eftir sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu . og þar af leiðandi borga stúdentar við HÍ mishá leikskólagjöld við leikskóla FS eftir búsetu. Til að mynda greiða stúdentar með lögheimili í Hafnarfirði sem eru forráðamenn barns sem er á leikskóla FS mun hærri leikskólagjöld en stúdentar með lögheimili í Reykjavík. Þessu vill Röskva breyta.

RÖSKVA VILL HÆRRI FÆÐINGARSTYRK

Röskva vill sjá fæðingarstyrk til námsmanna í samræmi við framfærslutöflu LÍN. Samkvæmt núverandi fyrirkomulagi fá allir námsmenn sömu upphæð í fæðingarstyrk, óháð hjúskaparstöðu og fjölda barna. Röskva vill að tekið sé tillit til þessara þátta.

RÖSKVA VILL TRYGGJA RÉTT ALLRA STÚDENTA TIL FÆÐINGARSTYRKS

Núgildandi lög um fæðingarorlof eru meingölluð varðandi rétt stúdenta. Það er ólíðandi að stúdentar erlendis og nýútskrifaðir stúdentar fái ekki í öllum tilvikum greitt úr Fæðingarorlofssjóði. Röskvu finnst mikið jafnréttismál að allir nýbakaðir foreldrar eigi fullan rétt á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði í samræmi við grunnframfærsluviðmið.

RÖSKVA VILL AÐ TEKIÐ SÉ AUKIÐ TILLIT TIL FORELDRA

Röskva hefur lengi barist fyrir því að kennslustundum ljúki fyrir lokunartíma leikskóla. Það er ótækt að foreldrar geti ekki sótt kennslustundir vegna þess að ekki er tekið tillit til fjölskyldulífs við gerð stundaskráa. Í þeim tilvikum þar sem ekki er hægt að mæta þessum kröfum er t.d. hægt að leysa vandann með því að hafa upptökur af fyrirlestrum aðgengilegar á netinu. Þar að auki telur Röskva nauðsynlegt að í öllum byggingum Háskóla Íslands séu barnastólar og aðstaða til þess að skipta á börnum. Röskva mælist einnig til þess að Háma hefji sölu á barnamat.

RÖSKVA VILL AÐ FRAMFÆRSLA BARNA NÁMSMANNA SÉ ÓHÁÐ NÁMSFRAMVINDU

Framfærsla barna námsmanna ætti ekki að vera háð námsframvindu foreldra. Ef foreldri nær ekki að ljúka lágmarks einingafjölda ætti að minnsta kosti hluti lána að vera greiddur út svo foreldri geti framfleytt barninu sínu þrátt fyrir misbresti í námi.

BARNVÆN RÝMI Á HÁSKÓLASVÆÐINU

Röskva vill skoða þann möguleika að koma upp barnvænu rými á háskólasvæðinu.