Jafnréttismál

RÖSKVA SETUR JAFNRÉTTI Í FORGANG

Rauði þráðurinn í starfi Röskvu er hugsjónin um jafnrétti allra til náms, óháð kyni, kyngervi, kynhneigð, kynvitund, efnahag, trú, uppruna, búsetu, fötlun, veikindum, félagslegri stöðu eða aðstæðum að öðru leyti. Röskva vill tryggja að hvergi sé brotið á réttindum stúdenta við Háskóla Íslands. Þá vill Röskva vinna með og hlúa að hinum ýmsu hagsmunafélögum sem starfa innan Háskólans.

RÖSKVA VILL AÐ JAFNRÉTTISÁÆTLUN HÁSKÓLA ÍSLANDS VERÐI VIRT

Jafnréttisáætlun Háskóla Íslands á undantekningalaust að tryggja raunverulegt jafnrétti innan skólans.

RÖSKVA KALLAR EFTIR JAFNRÉTTI KYNJANNA

Mismunun á grundvelli kyns er viðvarandi og ótal hindranir standa í vegi fyrir jöfnum tækifærum fólks háð kyni og kyngervi á mörgum sviðum. Röskva vill efla jafnréttisvitund háskólasamfélagsins sem og samfélagsins í heild. Jafnframt þarf að útrýma staðalímyndum kynjanna sem og kerfisbundnu misrétti.

RÖSKVA KREFST JAFNRÉTTISFRÆÐSLU Á HÁSKÓLASTIGI

Kynbundin áreitni og ofbeldi á ekki að líðast innan Háskólans sem og samfélagsins í heild sinni. #metoo byltingin hefur vakið mikla athygli, enda löngu tímabært að uppræta þetta samfélagsmein. Á sama tíma og jafnréttisfræðsla er skylda í grunn- og framhaldsskólum þá er hún það ekki í háskólum og krefst Röskva þess að jafnréttisfræðsla verði skylda innan háskólasamfélagsins. Sömuleiðis er það hlutverk Stúdentaráðs og sviðsráða að vekja athygli á Fagráði Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og öðru kynferðislegu ofbeldi. Fagráðið þjónustar alla nemendur við Háskóla Íslands.

RÖSKVA VILL AÐ HALDIÐ VERÐI ÁFRAM MEÐ VINNU STÚDENTARÁÐS VIÐ GERÐ JAFNRÉTTISSTEFNU OG INNLEIÐINGU VERKLAGSREGLNA UM VIÐBRÖGÐ VIÐ KYNBUNDNU OG KYNFERÐISLEGU OFBELDI OG ÁREITNI.

Mikilvægt er að Stúdentaráð sem rödd stúdenta móti sér framsækna stefnu í jafnréttismálum í hinum víðasta skilningi. Vinna er hafin við gerð jafnréttisstefnu SHÍ og telur Röskva að nauðsynlegt sé að halda þeirri vinnu áfram. Jafnframt telur Röskva mikilvægt að verklagsreglum Stúdentaráðs um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi verði fylgt eftir.

RÖSKVA VILL EKKI AÐ NEIN NEFND INNAN SHÍ SÉ EINKYNJA OG AÐ NEFNDIR ENDURSPEGLI ÞANN FJÖLBREYTILEIKA SEM ER INNAN SKÓLANS

Röskva vill að nefndir SHÍ endurspegli þann fjölbreytileika sem er innan skólans. Röskva telur mikilvægt að mismunandi raddir kynjanna fái að heyrast í öllu starfi Stúdentaráðs og fylkingar eigi að stuðla að því þegar skipa á í nefnd. Kynsegin einstaklingum á ekki að vera mismunað út frá því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu.

RÖSKVA VILL AÐ STUÐLAÐ SÉ AÐ JÖFNUM KYNJAHLUTFÖLLUM Í NEMENDAHÓPUM ALLRA DEILDA HÁSKÓLANS

Verulegur kynjahalli er viðvarandi innan nokkurra deilda Háskólans. Röskva vill að Háskólinn haldi kynningu á þeim deildum í öllum framhaldsskólum landsins til þess að leiðrétta skekkjuna. Í öllu kynningarefni og námsefni yrði þá unnið að því að sýna kynin jafnt að störfum.

RÖSKVA VILL JAFNARI KYNJASKIPTINGU KENNARA INNAN DEILDA HÁSKÓLA ÍSLANDS

Því hærra sem er farið upp metorðastigann innan deilda Háskólans, því meiri er kynjahallinn. Á þessu vill Röskva vekja athygli.

RÖSKVA VILL JAFNRÉTTI TIL NÁMS ÓHÁÐ UPPRUNA

Jafnrétti til náms er ekki til staðar innan Háskóla Íslands. Flóttafólk, erlendir stúdentar og innflytjendur eiga erfiðara með að fá inngöngu í nám og stunda það við Háskóla Íslands heldur en stúdentar fæddir og uppaldir á Íslandi. Verkefni og próf á ensku ættu að standa öllum erlendum stúdentum til boða. Öllum erlendum stúdentum ætti jafnframt að bjóðast aðgengi að námskeiðum og námsleiðum í íslensku, óháð því á hvaða stigi tungumálaþekking þeirra er í íslensku eða hvaða nám þeir stunda við Háskólann.

RÖSKVA VILL SAMFÉLAGSLEGA ÁBYRGÐ HÁSKÓLA ÍSLANDS GAGNVART INNFLYTJENDUM OG FLÓTTAFÓLKI

Bjóða á einstaklingum af erlendum uppruna að sækja námskeið í íslensku við Háskóla Íslands til að undirbúa sig fyrir námið. Röskva vill að Háskóli Íslands sýni samfélagslega ábyrgð með þessum hætti og ýti undir raunverulegt jafnrétti til náms, óháð uppruna.

RÖSKVA VINNUR AÐ MÁLEFNUM HINSEGIN FÓLKS (LGBTQIA+)

Röskva telur þarft að eyða þeim forskilningi sem miðar við tvískipt kynjakerfi og gagnkynhneigt forræði. Auka þarf samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök hinsegin fólks í þeim tilgangi að efla umræðu um málefni þeirra.

RÖSKVA VILL TRYGGJA AÐ STÚDENTAR MEÐ SÉRTÆKAR NÁMSÞARFIR FÁI AÐSTOÐ OG SKILNING KENNARA

Starfandi er greiningarsjóður fyrir stúdenta með sértækar námsþarfir. Röskva telur mikilvægt að standa vörð um starfsemi sjóðsins. Röskva vill einnig beita sér fyrir opinni og upplýstri umræðu um málefni stúdenta með sértækar námsþarfir og möguleg úrræði.

RÖSKVA VILL AÐ SKÝRARA SÉ HVAÐA ÚRRÆÐI SÉU Í BOÐI FYRIR STÚDENTA MEÐ SÉRTÆKAR NÁMSÞARFIR

Röskva vill að samantekt um úrræði fyrir stúdenta með sértæka námsörðugleika, veikindi, geðraskanir og fatlanir verði birt án tafar. Samkvæmt lögum ber Háskóla Íslands skylda að upplýsa stúdenta með fötlun/fatlanir eða stúdenta með sértækar námsþarfir um réttindi sín og úrræði. Röskva vill því að Háskólinn hafi frumkvæði að almennri kynningu um þessi atriði innan háskólasamfélagsins og á heimasíðu Háskólans.

HVETJANDI AÐGERÐIR TIL AÐ AUKA SÓKN NÝRRA ÍSLENDINGA Í HÁSKÓLAMENNTUN

Röskva vill leita lausna svo nýir Íslendingar með erlendan bakgrunn sæki sér frekar háskólamenntun. Væri það hægt með samstarfi við Menntamálaráðuneytið og framhaldsskóla varðandi undirbúning og kynningu á háskólanámi. Röskva vill einnig að gerð verði úttekt á stöðu innflytjenda í menntakerfinu á Íslandi og hvernig megi auðvelda aðgang þeirra að háskólasamfélaginu.

RÖSKVA VILL KYNLAUS KLÓSETT

Það þarf að halda áfram vinnunni vegna kynlausra klósetta sem jafnréttisnefnd hefur barist fyrir síðastliðin ár.

RÖSKVA VILL TÍÐARVÖRUR Á ÖLL KLÓSETT

Tíðarvörur eiga að vera jafn aðgengilegar og aðrar hreinlætisvörur. Það er ekki hægt að gera ráð fyrir að fólk hafi gert ráðstafanir þegar náttúran kallar. Þá berst Röskva fyrir því að fyrsta skrefið í að tryggja aðgengi að tíðarvörum hljóti að vera að Háma selji slíkar vörur.

UPPTÖKUR Í TÍMUM SEM JAFNRÉTTI TIL NÁMS

Röskva vill að litið sé á upptökur í tímum sem jafnréttismál. Ekki hafa allir færi á því að mæta eða fylgjast með í tímum t.d. vegna andlegra og/eða líkamlegra veikinda, fötlunar, búsetu, fjölskylduhátta eða annarra aðstæðna. Röskva vill að komið sé til móts við þá stúdenta með upptökum í kennslustundum.

 – AÐGENGISMÁL

RÖSKVA VILL TRYGGJA AÐGENGI FÓLKS MEÐ FÖTLUN/FATLANIR

Aðgengi fólks með fötlun/fatlanir að byggingum Háskóla Íslands er óviðunandi. Nám við ákveðnar deildir Háskólans er ómögulegt öðrum en þeim sem hafa ekki fötlun/fatlanir. Röskva vill benda á að Háskólatorg uppfyllir ekki þau skilyrði sem varða aðgengi allra. Röskva krefst þess að aðgengismál í Háskólanum verði að forgangsatriði hjá ráðamönnum Háskólans. Aðgangur að upplýsingum um aðgengi að byggingum er einnig óviðunandi og vill Röskva að því verði breytt tafarlaust.

RAUNVERULEGAR BREYTINGAR Á HÚSNÆÐI HÁSKÓLANS

Röskva telur rétt að koma fyrir fleiri og betri lyftum í húsnæði HÍ, til dæmis í Odda, Eirbergi, íþróttahúsinu, Nýja Garði og öðrum byggingum. Háskólinn ætti að forgangsraða fé í slík mál enda eðlilegt og nauðsynlegt að tryggja aðgengi allra.  

HÁSKÓLI ÍSLANDS ÆTTI AÐ VERA MEÐ EINFALT OG AÐGENGILEGT ÁBENDINGAKERFI

Þannig væri hægt að koma að ábendingum til dæmis um skort á aðgengi í húsnæðum HÍ, brotum á hagsmunum stúdenta og þess háttar. Í dag er erfitt að finna út úr því hvernig sé best að koma slíkum ábendingum áfram og telur Röskva rétt að ráða bót á því.

LÍKAMS- OG HEILSURÆKT GERÐ AÐGENGILEGRI

Húsnæði háskólaræktarinnar er óaðgengilegt stúdentum í hjólastólum. Röskva vill að líkams- og heilsurækt sé aðgengileg öllum stúdentum.

RÖSKVA VILL PUNKTALETURSMERKINGAR OG LEIÐARLÍNUR Í ALLAR BYGGINGAR HÁSKÓLA ÍSLANDS

Háskólayfirvöld hafa lofað að merkja stofur og skrifstofur skólans með punktaletri og leiðarlínum. Sérstaklega mikilvægt er að lagfæra leiðarlínu á Háskólatorgi.

RÖSKVA VILL AÐ FÉLÖG OG NEFNDIR INNAN HÁSKÓLANS BÆTI AÐGENGI Á VIÐBURÐI

Öll félög og nefndir innan Háskóla Íslands eiga að tryggja aðgengi fyrir alla á viðburði sína. Þetta ber að hafa í huga þegar heimabar er valinn og þegar haldnir eru reglulegir viðburðir eins og Októberfest, árshátíðir, vísindaferðir, skíðaferðir og fleira.

RÖSKVA VILL RÁÐSTAFANIR FYRIR KENNSLUSTUNDIR UTAN HÁSKÓLASVÆÐISINS

Kennarar eiga að tryggja að aðgengi sé fyrir alla nemendur þegar farið er í vettvangsferðir.

UPPRÖÐUN Í HÁMU

Uppröðun á vörum í Hámu á að vera lóðrétt til þess að fólki af allri stærðargráðu og líkamlegu atgervi sé kleift að nálgast vörur í Hámu á eigin vegum.

FJÖLBREYTT SÆTISÚRVAL – ENGAR STOFUR SEM EINUNGIS HAFA SÆTI MEÐ ÁFÖSTUM BORÐUM

Röskva vill ekki að neinar kennslustofur hafi einungis sæti með áföstum borðum. Þetta fyrirkomulag hentar illa fyrir einstaklinga í hjólastólum, sem og aðra einstaklinga sökum vaxtarlags. Það er ólíðandi að einstaka stúdentar geti ekki setið við borð í kennslustundum.

 – GEÐHEILBRIGÐISMÁL 

RÖSKVA VILL BÆTA ÞJÓNUSTU VIÐ FÓLK MEÐ GEÐRÆNAN VANDA OG FJÖLGA SÁLFRÆÐINGUM

Stórefla þarf geðheilbrigðisþjónustu stúdenta í Háskóla Íslands. Sálfræðiþjónusta klínískra sálfræðinema er framúrskarandi en sálfræðinemar eiga ekki að taka þungann af þessum skorti. Röskva krefst þess að stöðugildum sálfræðinga verði fjölgað.

RÖSKVA KREFST FLEIRI MEÐFERÐARÚRRÆÐA

Röskva krefst þess einnig að meðferðarúrræðum fyrir stúdenta fjölgi.

RÖSKVA VILL AÐ HJÚKRUNARFRÆÐINGUR STARFI INNAN SKÓLANS

Röskva vill hjúkrunarfræðing sem starfar innan veggja háskólans og gæti meðal annars sinnt forvörnum og gripið fyrr inn í, bæði þegar kemur að líkamlegri og andlegri heilsu stúdenta.

ÚTTEKT Á HEILDRÆNNI HEILSUGÆSLUÞJÓNUSTU STÚDENTA OG STUÐLA AÐ AUKINNI GEÐHEILBRIGÐISÞJÓNUSTU

Röskva leggur til að skólayfirvöld geri úttekt á því að koma upp heilsugæslu á háskólasvæðinu og koma á heildrænni heilbrigðisþjónustu fyrir nemendur. Árangri hefur verið náð í vinnu að bættri þjónustu geðheilbrigðismála og vill Röskva halda þeirri vinnu áfram.

BÆTT AÐGENGI AÐ ÚRRÆÐUM

Röskva vill að nemendur verði upplýstari um þau úrræði sem standa þeim nú þegar til boða og gera þjónustuna aðgengilegri fyrir nemendur. Röskva vill til dæmis að úrræði sem standa nemendum til boða verði auglýst skýrt á upphafssíðu Uglunnar. Röskva krefst þess að upplýsingar um réttindi fólks með geðrænan vanda séu gerðar aðgengilegri.

RÖSKVA VILL STUÐLA AÐ ÞVÍ AÐ AÐILAR SEM GLÍMA VIÐ GEÐHEILBRIGÐISVANDA GETI TEKIÐ VIRKAN ÞÁTT Í FÉLAGSLÍFI

Röskva telur að félagslíf eigi að vera aðgengilegt öllum nemendum Háskóla Íslands. Námsráðgjafar og aðrir þurfa að geta veitt upplýsingar um félagslíf sem stendur til boða. Röskva býður alla í þessum aðstæðum velkomna til að leita til fylkingarinnar, til að mynda til trúnaðarmanna og annarra Röskvuliða.

AUKIN FRÆÐSLA

Röskva telur að bæta eigi fræðslu fyrir bæði kennara og stúdenta um geðheilbrigði. Fræðsla um geðheilbrigði gæti t.d. verið hluti af endurmenntun kennara. Líta má í enn meira mæli til Hugrúnar geðfræðslufélags.

AUÐVELDUM NEMENDUM UPPLÝSINGAGJÖF

Röskva vill að nemendum standi til boða að skrá sjúkdóma, bæði geðræna og líkamlega eða það sem gæti flokkast sem námsörðugleikar, strax við innritun í Háskóla Íslands. Þannig er hægt að koma í veg fyrir að stúdentar þurfi að upplýsa hvern og einn kennara um sínar aðstæður og minnka álag á stúdenta.

STREITA OG ÁLAG VEGNA HÚSNÆÐISMÁLA

Geðheilbrigði stúdenta er áhyggjuefni og streita hjá stúdentum er mikil en þessi mál þarf að bæta. Röskva telur að álag vegna húsnæðismála valdi enn frekari streitu og þarf því að taka á þeim málum um leið.

– HINSEGIN MÁL

RÖSKVA VINNUR AÐ MÁLEFNUM HINSEGIN FÓLKS (LGBTQIA+)

Röskva telur þarft að eyða þeim forskilningi sem miðar við tvískipt kynjakerfi og gagnkynhneigt forræði. Auka þarf samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök hinsegin fólks, þá sérstaklega Q-félags hinsegin stúdenta sem sinna einstaklega mikilvægu starfi innan háskólasamfélagsins, í þeim tilgangi að efla umræðu um málefni þeirra. Þannig vill Röskva m.a. stuðla að almennri viðurkenningu og vitundarvakningu á þeim hindrunum sem trans nemendur við Háskóla Íslands standa frammi fyrir. Röskva vill vekja athygli á því að með því að notast við tvískipt kynjakerfi, t.d. við gerð rannsókna, er litið fram hjá málefnum og veruleika kynsegin fólks. Það dregur upp skakka mynd af samfélaginu. Menntun sem litast af tvískiptu kynjakerfi viðheldur staðalímyndum og fordómum.

RÖSKVA VILL KYNLAUS KLÓSETT

Það þarf að halda áfram vinnunni vegna kynlausra klósetta sem jafnréttisnefnd hefur barist fyrir síðastliðin ár.

RÖSKVA VILL AÐ KYNSKRÁNING STÚDENTA SÉ FJÖLBREYTTARI

Röskva vill að tekið sé tillit til trans og kynsegin stúdenta hvað varðar kynskráningu inni á Uglu, sbr. nafnabreytingu. Stúdentar eiga að geta skráð það kyn sem á við þá, óháð því sem stendur í Þjóðskrá. Kynskráning á að gera ráð fyrir fleiri en tveimur kynjum og bjóða upp á valmöguleikann „vil ekki svara“.

RÖSKVA VILL STUÐLA AÐ KYNLAUSU MÁLFARI OG BÆTTRI HINSEGIN ORÐRÆÐU

Röskva vill tryggja það að hinsegin stúdentar séu ekki útilokaðir innan Háskólans, t.d. við kennslu. Íslenskan er einstaklega kynjað tungumál en við erum svo heppin að vera afar frjó þegar það kemur að nýyrðum, og alveg sérstaklega hýryrðum! Fornafnið ‘hán’ hefur náð ágætri festu í samfélaginu en það þarf að stuðla að notkun orðsins enn frekar, t.d. í kennslu og almennu talmáli þegar rætt er um fólk í víðum skilningi. Að sama skapi þurfa yfirlýsingar, rannsóknir, auglýsingar o.fl. sem kemur frá Háskólanum, félögum, nefndum og fylkingum innan hans að taka til hinnar fjölbreyttu flóru hinsegin fólks sem notast ekkert endilega við kvk. eða kk. lýsingarorð. (Dæmi: ert þú ánægð/ur/t með HÍ?)

Eftir að Samtökin ‘78 efndu til nýyrðasamkeppni þá hafa mörg ný orð sprottið upp í tungumálinu. Röskva vill að slík orðræða sé tekin upp af krafti innan Háskólans til þess að stuðla að sýnileika og fagna hinsegin flórunni.

RÖSKVA VILL STUÐLA AÐ VALDEFLINGU HINSEGIN HAGSMUNAFÉLAGA INNAN HÁSKÓLASAMFÉLAGSINS

Röskva vill efla starfsemi Q – félags hinsegin stúdenta og Samtakanna ‘78 innan Háskólans. Röskva vill stuðla að því að háskólasamfélagið beri hinsegin málefni og hagsmunamál undir slík félög til þess að vernda réttmæti kennsluefnis og hagsmuni hinsegin fólks. Röskva vill að réttindaskrifstofa Stúdentaráðs leiti með málefni hinsegin einstaklinga til hagsmunasamtaka hinsegin fólks og vinni þannig að lausn mála með reyndum aðilum. Röskva vill hvetja til þess að sú fræðsla sem Q-félagið sér um sé greidd af þeim sem hana pantar. Röskva vill því einnig hvetja Háskóla Íslands til að setja á fót fræðslusjóð sem greitt verður úr fyrir hverja framkvæmda fræðslu.

RÖSKVA VILL AÐ HAGSMUNAFULLTRÚI SHÍ GETI TEKIÐ Á MÁLUM SEM VARÐA HINSEGIN STÚDENTA

Komi upp vandamál sem varða hinsegin stúdenta, fordómar kennara eða nemenda í garð þeirra, meiðandi orðræða eða einhverskonar mismunun, verður hagsmunafulltrúi SHÍ að geta tekið rétt og vel á þeim málum. Röskva vill tryggja að hagsmunafulltrúi SHÍ sé í stakk búin/n/ð til að takast á við slíkt með því að stuðla að því að upplýsingar um hinsegin málefni séu aðgengilegar og skýrar.

RÖSKVA VILL AÐ HINSEGIN FÓLK SÉ SÝNILEGRA INNAN HÍ

Röskva vill að hinsegin fólk sé sýnilegra innan Háskólans. Ekki þarf aðeins að stuðla að breytingum á félagslegum viðhorfum heldur einnig þeim kerfis- og stofnanabundnu. Til þess að auka sýnileika og skapa betra andrúmsloft fyrir hinsegin stúdenta þarf að gera ráð fyrir þeim í kennslustundum og á öðrum sviðum innan HÍ, t.d. í námsefni, verkefnum, auglýsingum fyrir Háskólann o.fl.

RÖSKVA VILL HINSEGIN FRÆÐSLU FYRIR ALLA INNAN HÍ

Röskva vill að allt starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands fái góðar upplýsingar um hinsegin samfélagið. Slíka fræðslu er auðvelt að nálgast þar sem bæði Q-félag hinsegin stúdenta og Samtökin ‘78 hafa verið að sinna slíku starfi. Koma þarf svona fræðslu inn í sem flestar deildir Háskólans til þess að sporna gegn fordómum og auka skilning og vitneskju um þann fjölbreytta hóp sem hinsegin samfélagið er.

RÖSKVA VILL AÐ NÁMSEFNI SÉ Í TAKT VIÐ TÍMANN HVAÐ VARÐAR HINSEGIN RAUNVERULEIKA

Röskva vill að námsefni sem kveður á um úreltar staðalímyndir og upplýsingar um hinsegin fólk hverfi úr kennslu. Skoða þarf námsefni vel og gæta þess að engar rangfærslur séu til staðar í kennsluefninu. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli innan þeirra sviða þar sem unnið er með fólki, þá einkum á Heilbrigðis- og Menntavísindasviði, þar sem rangar upplýsingar geta verið fráhrindandi, skaðlegar og útilokandi fyrir hinsegin fólk.

RÖSKVA VILL HVETJA TIL FREKARI RANNSÓKNA Á HINSEGIN MÁLEFNUM

Lengi hefur mikil þöggun verið á hinsegin málefnum en á síðustu árum hefur bylting orðið í slíkum fræðum. Röskva vill hvetja til frekari rannsókna sem snúa að hinsegin einstaklingum og þeirra upplifun, í samráði við hinsegin samfélag Íslands. Röskva vill einnig sjá fleiri áfanga sem fjalla sérstaklega um hinsegin málefni, því enn er margt ókannað í þeim efnum.