Hinsegismál

Röskva vinnur að málefnum hinsegin fólks (LGBTQIA+)
Röskva telur þarft að eyða þeim forskilningi sem miðar við tvískipt kynjakerfi og gagnkynhneigt forræði. Auka þarf samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök hinsegin fólks, þá sérstaklega Q-félags hinsegin stúdenta sem sinna einstaklega mikilvægu starfi innan háskólasamfélagsins, í þeim tilgangi að efla umræðu um málefni þeirra. Þannig vill Röskva m.a. stuðla að almennri viðurkenningu og vitundarvakningu á þeim hindrunum sem trans nemendur við Háskóla Íslands standa frammi fyrir. Röskva vill vekja athygli á því að með því að notast við tvískipt kynjakerfi, t.d. við gerð rannsókna, er litið fram hjá málefnum og veruleika kynsegin fólks. Það dregur upp skakka mynd af samfélaginu. Menntun sem litast af tvískiptu kynjakerfi viðheldur staðalímyndum og fordómum.

Röskva vill kynlaus klósett
Það þarf að halda áfram vinnunni vegna kynlausra klósetta sem jafnréttisnefnd hefur barist fyrir síðastliðin ár.

Röskva vill að kynskráning stúdenta sé fjölbreyttari
Röskva vill að tekið sé tillit til trans og kynsegin stúdenta hvað varðar kynskráningu inni á Uglu, sbr. nafnabreytingu. Stúdentar eiga að geta skráð það kyn sem á við þá, óháð því sem stendur í Þjóðskrá. Kynskráning á að gera ráð fyrir fleiri en tveimur kynjum og bjóða upp á valmöguleikann „vil ekki svara“.

Röskva vill stuðla að kynlausu málfari og bættri hinsegin orðræðu
Röskva vill tryggja það að hinsegin stúdentar séu ekki útilokaðir innan Háskólans, t.d. við kennslu. Íslenskan er einstaklega kynjað tungumál en við erum svo heppin að vera afar frjó þegar það kemur að nýyrðum, og alveg sérstaklega hýryrðum! Fornafnið ‘hán’ hefur náð ágætri festu í samfélaginu en það þarf að stuðla að notkun orðsins enn frekar, t.d. í kennslu og almennu talmáli þegar rætt er um fólk í víðum skilningi. Að sama skapi þurfa yfirlýsingar, rannsóknir, auglýsingar o.fl. sem kemur frá Háskólanum, félögum, nefndum og fylkingum innan hans að taka til hinnar fjölbreyttu flóru hinsegin fólks sem notast ekkert endilega við kvk. eða kk. lýsingarorð. (Dæmi: ert þú ánægð/ur/t með HÍ?)

Eftir að Samtökin ‘78 efndu til nýyrðasamkeppni þá hafa mörg ný orð sprottið upp í tungumálinu. Röskva vill að slík orðræða sé tekin upp af krafti innan Háskólans til þess að stuðla að sýnileika og fagna hinsegin flórunni.

Röskva vill stuðla að valdeflingu hinsegin hagsmunafélaga innan háskólasamfélagsins
Röskva vill efla starfsemi Q – félags hinsegin stúdenta og Samtakanna ‘78 innan Háskólans. Röskva vill stuðla að því að háskólasamfélagið beri hinsegin málefni og hagsmunamál undir slík félög til þess að vernda réttmæti kennsluefnis og hagsmuni hinsegin fólks. Röskva vill að réttindaskrifstofa Stúdentaráðs leiti með málefni hinsegin einstaklinga til hagsmunasamtaka hinsegin fólks og vinni þannig að lausn mála með reyndum aðilum. Röskva vill hvetja til þess að sú fræðsla sem Q-félagið sér um sé greidd af þeim sem hana pantar.  Röskva vill því einnig hvetja Háskóla Íslands til að setja á fót fræðslusjóð sem greitt verður úr fyrir hverja framkvæmda fræðslu.

Röskva vill að hagsmunafulltrúi SHÍ geti tekið á málum sem varða hinsegin stúdenta
Komi upp vandamál sem varða hinsegin stúdenta, fordómar kennara eða nemenda í garð þeirra, meiðandi orðræða eða einhverskonar mismunun, verður hagsmunafulltrúi SHÍ að geta tekið rétt og vel á þeim málum. Röskva vill tryggja að hagsmunafulltrúi SHÍ sé í stakk búin/n/ð til að takast á við slíkt með því að stuðla að því að upplýsingar um hinsegin málefni séu aðgengilegar og skýrar.

Röskva vill að hinsegin fólk sé sýnilegra innan HÍ
Röskva vill að hinsegin fólk sé sýnilegra innan Háskólans. Ekki þarf aðeins að stuðla að breytingum á félagslegum viðhorfum heldur einnig þeim kerfis- og stofnanabundnu. Til þess að auka sýnileika og skapa betra andrúmsloft fyrir hinsegin stúdenta þarf að gera ráð fyrir þeim í kennslustundum og á öðrum sviðum innan HÍ, t.d. í námsefni, verkefnum, auglýsingum fyrir Háskólann o.fl.

Röskva vill hinsegin fræðslu fyrir alla innan HÍ
Röskva vill að allt starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands fái góðar upplýsingar um hinsegin samfélagið. Slíka fræðslu er auðvelt að nálgast þar sem bæði Q-félag hinsegin stúdenta og Samtökin ‘78 hafa verið að sinna slíku starfi. Koma þarf svona fræðslu inn í sem flestar deildir Háskólans til þess að sporna gegn fordómum og auka skilning og vitneskju um þann fjölbreytta hóp sem hinsegin samfélagið er.

Röskva vill að námsefni sé í takt við tímann hvað varðar hinsegin raunveruleika
Röskva vill að námsefni sem kveður á um úreltar staðalímyndir og upplýsingar um hinsegin fólk hverfi úr kennslu. Skoða þarf námsefni vel og gæta þess að engar rangfærslur séu til staðar í kennsluefninu. Þetta skiptir sérstaklega miklu máli innan þeirra sviða þar sem unnið er með fólki, þá einkum á Heilbrigðis- og Menntavísindasviði, þar sem rangar upplýsingar geta verið fráhrindandi, skaðlegar og útilokandi fyrir hinsegin fólk.

Röskva vill hvetja til frekari rannsókna á hinsegin málefnum
Lengi hefur mikil þöggun verið á hinsegin málefnum en á síðustu árum hefur bylting orðið í slíkum fræðum. Röskva vill hvetja til frekari rannsókna sem snúa að hinsegin einstaklingum og þeirra upplifun, í samráði við hinsegin samfélag Íslands. Röskva vill einnig sjá fleiri áfanga sem fjalla sérstaklega um hinsegin málefni, því enn er margt ókannað í þeim efnum.

Röskva vill þakka Q-félagi hinsegin stúdenta kærlega fyrir athugasemdirnar sem bárust eftir að stefnan okkar fór í loftið. Við fengum leyfi frá þeim til þess að vinna úr þeim punktum og bæta við hana. Gagnrýni er afar mikilvæg og þörf og við fögnum henni. Við vonumst til að eiga í góðu og löngu samstarfi við Q til þess að tryggja enn betra umhverfi fyrir hinsegin stúdenta innan HÍ.