Kennslu og gæðamál

NOTKUN NEMENDANÚMERA

Í reglum Háskóla Íslands kemur skýrt fram að notkun nemendanúmera eigi að vera meginregla þegar kemur að próftöku. Deildir megi þó setja sér undanþágur frá þessari reglu. Röskva krefst þess að slíkar undanþágur séu teknar fyrir af Háskólaráði og aðeins veittar gegn viðunandi rökstuðningi. Óeðlilegt er að undanþágur séu eins algengar og raun ber vitni og ætti nýtt rafrænt prófakerfi sem tekið var upp á skólaárinu 2018-2019 að auðvelda kennurum notkun nemendanúmera.

NÁMSAÐSTAÐA

Tryggja þarf námsaðstöðu stúdenta innan Háskóla Íslands. Ótækt er að stúdentar geti ekki átt sér athvarf utan heimilisins til náms. Vinnu- og lesherbergi mættu einnig vera fjölbreyttari svo stúdentar hafi val um vinnuaðstöðu.

RÖSKVA VILL KYNJAFRÆÐI SEM SKYLDUFAG Í KENNARAMENNTUN

Röskva vill beita sér fyrir því að kynjafræði verði sett inn í námskrár Menntavísindasviðs sem skyldunámskeið. Menntakerfið á stóran þátt í mótun og viðhaldi á staðalímyndum kynjanna. Kennarar gegna miklu ábyrgðarhlutverki hvað þetta varðar og því er mikilvægt að kennarar framtíðarinnar hafi þekkingu á þessu sviði.

RÖSKVA VILL AÐ ALLAR KENNSLUSTUNDIR SÉU AÐGENGILEGAR Á NETINU

Stúdentar hafa ekki alltaf tök á að mæta í kennslustundir vegna ólíkra aðstæðna. Upptökur á fyrirlestrum gætu verið aðgengilegar, t.d. viku í senn, svo þau sem komast ekki í tíma hafi engu að síður aðgang að námsefninu. Röskva vill beita sér fyrir því að fjarnám verði eflt og að allt námsefni til prófs verði aðgengilegt á netinu, þar með taldir fyrirlestrar. Stjórnvöld skólans ættu að gera þær leiðir sem standa til boða fyrir kennara til þess að taka upp fyrirlestra enn aðgengilegri.

MEIRA GAGNSÆI EF ÍTREKAÐAR KVARTANIR BERAST TIL HÁSKÓLANS

Röskva telur að auka megi gagnsæi um hvernig er tekið á ítrekuðum kvörtunum eða ábendingum stúdenta vegna kennslu, kennsluhátta, eftirfylgni með námsáætlunum eða öðru slíku.

BETRI EFTIRFYLGNI KENNSLUKANNANA

Deildarfulltrúar stúdenta og nemendafélög eiga rétt á aðgangi að niðurstöðum kennslukannana. Röskva vill tryggja, með skýrum reglum og verkferlum, að niðurstöður kennslukannana nýtist til þess að bæta nám við Háskóla Íslands. Röskva krefst þess að nemendur verði upplýstir um niðurstöður kennslukannana og komi að tillögum til úrbóta.

EINKUNNIR NÁMSKEIÐA

Röskva vill að einkunnir námskeiða úr kennslukönnunum síðustu tveggja ára verði aðgengilegar við val á námskeiðum. Einkunnagjöf námskeiða myndi vera hvetjandi fyrir kennara til að halda uppi góðum kennsluháttum.

AUKIÐ AÐGENGI AÐ PRÓFSÝNINGUM

Röskva krefst þess að prófsýningar séu betur auglýstar og aðgengi að þeim sé aukið. Hlutverk háskólans er að gefa nemendum tækifæri til að læra og erfitt er að læra af prófunum ef nemendur sjá aldrei hvað má betur fara. Tryggja þarf að prófsýningar séu haldnar í öllum deildum og nemendum sé gefið tækifæri til að kynna sér niðurstöður sínar.

SKÝRAR KENNSLUÁÆTLANIR

Röskva telur að bæði kennarar og nemendur hagnist af því að hafa skýrar kennsluáætlanir tilbúnar áður en nám hefst í upphafi annar. Námsmat þarf að vera skýrt allt frá upphafi, bæði vægi og framkvæmd sem og allt námsefni og áætlun námskeiðsins. Verði breytingar á námsáætlun þarf að tryggja að þær séu gerðar í samráði við nemendur.

RÖSKVA VILL EFLA STARF HAGSMUNASAMTAKA OG NEMENDAFÉLAGA INNAN HÁSKÓLA ÍSLANDS

Nauðsynlegt er að Stúdentaráð styðji við bakið á hagsmunasamtökum og nemendafélögum innan Háskólans. Mörg þessara félaga glíma við aðstöðuleysi og telur Röskva að mikilvægt sé að ráða bót á því. Röskva hvetur þar að auki Háskóla Íslands til þess að taka til greina vinnu hagsmunafélaga þegar málefni sem snúa að þeim eru til umræðu.

RÖSKVA VILL JAFNRÉTTISFRÆÐSLU Á ÖLLUM MENNTASTIGUM

Röskva vill minna á mikilvægi þess að kennarar séu undirbúnir sérstaklega til að takast á við fordóma og einelti. Enn fremur ættu kennarar aldrei að tala niður til ákveðins þjóðfélagshóps eða ýta undir fordóma. Mikilvægt er að framfylgja ávallt jafnréttisstefnu skólans.

FJÖLBREYTTARA NÁMSMAT INNAN HÁSKÓLA ÍSLANDS

Röskva hvetur Háskóla Íslands til að skoða nýjar leiðir í námsmati. Til að bæta gæði náms við háskólann þarf meðal annars að endurskoða hvernig nám er metið. Röskva leggur til að settur verði af stað starfshópur sem kannar fjölbreyttari námsmatsaðferðir í samstarfi við Kennslumálanefnd og Kennslumiðstöð Háskólans. Einnig ætti að skoða hvort mögulegt væri að leggja niður eða minnka vægi lokaprófa í vissum áföngum. Litið verði sérstaklega til alþjóðlegra háskóla í fremstu röð sem hafa tekið upp annars konar námsmat.

VIRK ENDURGJÖF

Röskva gerir kröfu um að stúdentar fái virka endurgjöf við verkefnum sínum og prófum. Röskva krefst þess að kennarar gefi nemendum greinargóðar skýringar við námsmat verkefna og prófa svo stúdentar geti lært af þeirri vinnu sem þeir leggja í námið sitt. Einnig stuðlar þetta að því að kennarar færi rök fyrir námsmati og kemur þar með í veg fyrir geðþóttaákvarðanir og ófaglega einkunnagjöf.

AUKIÐ SAMSTARF DEILDA OG SKÓLA

Röskva telur að aukið samstarf á milli deilda skólans sé öllum til hagsbóta og að slíkt ætti að nýta af meiri krafti. Bjóða ætti upp á fjölbreyttari samþættingu náms á milli deilda en slíkar aðgerðir ættu að vera auðveldar í framkvæmd innan skólans. Einnig telur Röskva að virkt samstarf milli íslenskra háskóla sé öllum til hagsbóta. Nú þegar er virkt samstarf á milli listfræðinema Háskólans og Listaháskóla Íslands en Röskva telur að fleiri möguleikar séu í boði. Deildir skólans ættu að kynna slíka möguleika fyrir nemendum og kynna sér hvernig standa mætti að námsmati á milli skóla.

RÖSKVA VILL MEIRA SAMSTARF STÚDENTA VIÐ STJÓRNSÝSLU HÁSKÓLA ÍSLANDS

Nemendur eiga rétt á fulltrúa í stjórn sviða Háskólans og tryggja þarf að skilaboð berist á milli sviðsforseta og sviðsráða. Með nánara samstarfi og meiri samskiptum stúdenta við stjórnsýslu Háskólans er hægt að auka vægi og áhrif stúdenta í ákvarðanatöku. Röskva vill sömuleiðis sjá virka fulltrúa nemenda á öllum deildarfundum innan Háskólans.

RÖSKVA VILL SKYLDA ALLA KENNARA Á NÁMSKEIÐ Í KENNSLUHÁTTUM

Háskólinn býður upp á námskeið í kennsluháttum og aðferðum og einnig svokallað Mentor kerfi fyrir nýja kennara. Röskva fagnar því að nýir kennarar sæki slík námskeið en fer einnig fram á að reyndari kennarar sæki námskeið í kennsluháttum á nokkurra ára fresti. Sömuleiðis ætti það að vera skylda að starfsmenn Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands sitji tíma hjá öllum kennurum og gefi þeim umsögn og ráðleggingar.

ENDURSKOÐAÐ MATSKERFI OPINBERRA HÁSKÓLA TAKI MIÐ AF GÆÐUM KENNSLU

Röskva vill að breytingar á matskerfi opinberu háskólanna, sem hefur áhrif á framgang og laun kennara við Háskólann, taki í stórauknum mæli tillit til gæða kennslu en ekki aðeins rannsóknarstarfs.

SJÚKRA- OG ENDURTEKTARPRÓF

Allir nemendur eiga rétt á sjúkra- og endurtektarprófum. Röskva vill að sjúkra- og endurtektarpróf verði haldin eftir hvert námsmisseri. Slík próf skal halda sem skemmst frá lokum próftímabils. Það er eðlileg krafa að deildir Háskólans hafi skýra og samræmda stefnu um fyrirkomulag sjúkra- og endurtektarprófa og að ljóst sé frá upphafi misseris hvernig þeim verði háttað.

EINKUNNASKIL

Það er skýr krafa að kennarar skili af sér einkunnum á tilsettum tíma. Til eru reglur þess efnis og mikilvægt er að framfylgja þeim. Sömu reglur eiga að gilda um lokapróf og önnur misserispróf, verkefni og ritgerðir.

SKÝR RÉTTINDI NEMENDA

Í of mörgum tilvikum eru nemendur skólans ekki meðvitaðir um sín réttindi, bæði gagnvart kennurum og skólanum sjálfum. Röskva telur að aukið upplýsingaflæði sé lykilatriði í því að bæta úr slíku og því þyrfti að efla samskipti nemendafélaga við sviðsráð. Einnig þyrfti að gera hlutverk hagsmunafulltrúa sviðanna og Stúdentaráðs greinilegri og stytta boðleiðir nemenda til þeirra. Gæta ætti að því að allir nýnemar Háskólans fái skýrar upplýsingar um réttindi sín strax í upphafi náms.

SÉRHÆFÐIR NÁMSRÁÐGJAFAR

Of oft leita nemendur til námsráðgjafa sem eru ekki nægilega upplýstir um málefni allra deilda. Skoða mætti þann möguleika að hafa starfandi námsráðgjafa á hverju sviði sem þekkir deildir sviðsins inn og út svo nemendur geti nýtt sér þá þjónustu sem Háskólinn vill bjóða uppá.

RÖSKVA VILL SAMRÆMT VINNUÁLAG NEMENDA AÐ BAKI HVERRI EININGU

Háskólinn á að fara eftir alþjóðlegum stöðlum um ECTS einingar en þrátt fyrir það upplifa stúdentar í flestum deildum mismikið vinnuálag eftir kennurum og námskeiðum. Háskólinn hefur skuldbundið sig til að gæta að einingaálagi í gegnum Bolognaferlið og krefst Röskva þess að farið verði eftir því.

STOFUR SKULU RÚMA STÚDENTA Í HVERJU NÁMSKEIÐI

Ólíðandi er að sum námskeið bjóða uppá stofur sem rúma ekki fjölda skráðra stúdenta í námskeiðið. Það getur valdið því að stúdentar þurfi að sitja á gólfinu eða komist ekki fyrir í stofunni. Það stuðlar ekki að gæðum í kennslu og stuðlar alls ekki að jafnrétti til náms. Leggur Röskva áherslu á að stofur skuli að minnsta kosti hafa nógu mörg sæti undir skráða stúdenta í námskeiðið.

TRYGGJA BER AÐGENGI AÐ NÁMSEFNI

Röskva telur óboðlegt að námsefni og námsbækur hafi ítrekað verið uppseldar í bóksölum eða hjá dreifingaraðilum. Slíkt takmarkar aðgengi að námi og mun Röskva berjast fyrir því að komið sé til móts við nemendur í þessum aðstæðum. Til dæmis mætti auka framboð á rafrænu námsefni og rafrænum gagnagrunnum.

RAFRÆN SKIL VERKEFNA OG RITGERÐA

Röskva vill draga úr pappírseyðslu og vill að stefnt sé á að fyrirmæli og skil ritgerða og verkefna sem eru unnin á tölvur fari eingöngu fram á rafrænu formi, t.d. að nýttir séu valkostir á Uglu. Rafrænt form
gæti til að mynda ýtt undir aukið samræmi á fyrirmælum um ritgerðir og verkefni en Röskva vill að það sé gert.

HÁSKÓLINN NÝTI SÉR MÖGULEIKA NÚTÍMANS – TÆKNIVÆDDARI HÁSKÓLI

Röskva vill að Háskóli Íslands kynni sér og nýti nýja tækni til að tengjast alþjóðasamfélaginu. Opin netnámskeið (MOOC) standa Háskólanum núna til boða og telur Röskva að þar liggi vannýtt sóknarfæri. Opin netnámskeið, sem og aðrar kennsluaðferðir, stuðla að auknum samskiptum við aðra háskóla og auka sömuleiðis samkeppnishæfni Háskólans.

RÖSKVA VILL AUKIÐ FRAMBOÐ FJARNÁMS

Stúdentar bera hag af þeim möguleika að geta stundað fjarnám. Aðgangur að fjarnámi er jafnréttismál fyrir þá nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu eða búsetu sjá sér ekki fært að mæta til náms í húsnæði Háskólans. Tæknin er nú þegar til staðar og telur Röskva óeðlilegt að ekki sé notast við hana í auknum mæli til að efla fjarnám við Háskólann. Röskva vill því að fyrirlestrar og það námsefni sem er til prófs sé tekið upp og að leitað sé leiða til að auka framboð fjarnáms.

KYNNING HAGSMUNAGÆSLU FYRIR FJARNEMA

Röskva vill að Stúdentaráð kynni í auknum mæli hagsmunagæslu sína fyrir fjarnemum.

RÖSKVA VILL BEITA SÉR FYRIR ÞVÍ AÐ STARFSNÁM VERÐI METIÐ TIL EININGA OG LAUNA

Röskva telur að starfsnám sé mikilvægt tækifæri fyrir stúdenta til að kynnast tilvonandi starfsumhverfi og atvinnumöguleikum eftir nám. Í starfsnámi fá nemendur tækifæri til að beita fræðilegri þekkingu í raunverulegum verkefnum. Stofna mætti nefnd sem héldi utan um starfsnám og miðlaði á milli stúdenta og deildarráðs