Lánasjóðsmál

Lánasjóðsmál eru eitt mikilvægasta jafnréttismál stúdenta. Lánasjóðurinn var stofnaður til þess að auka jafnrétti til náms óháð efnahag en Röskva telur að því jafnrétti sé enn ekki náð. Til þess að tryggja jafnan aðgang að námi þarf að efla stuðning við námsmenn, bæta þjónustu sjóðsins og tryggja að litið sé á fjármagn sem námsmenn fá til framfærslu sem fjárfestingu í menntun, sem er öllu þjóðfélaginu til bóta.

                                                                                       Þjónusta LÍN

FÉLAGSLEGUR JÖFNUNARSJÓÐUR
Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) þjónar ekki hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður og vill Röskva að úr því verði bætt.

BÆTT ÞJÓNUSTA
Röskva telur nauðsynlegt að bæta þjónustustig LÍN. Þörf er á auknu aðgengi að upplýsingum og ráðgjöf. Dæmi um að útgreiðslu námslána seinki ættu að heyra sögunni til. Röskva telur bestu leiðina til bættrar þjónustu vera reglulegar þjónustukannanir meðal lánþega og greiðenda. Niðurstöður slíkra kannana ætti að birta opinberlega og nýta til að gera þjónustu sjóðsins og kynningarefni notendavænna.

                                                        Grunnframfærsla og frítekjumark

HÆRRI GRUNNFRAMFÆRSLA
Framfærslu LÍN verður að hækka. Að mati Röskvu á ekki að vera heimilt að grunnframfærsla breytist um minna en því sem nemur verðbólgu á hverju ári, ella staðnar kaupmáttur framfærslulána sjóðsins. Að auki telur Röskva að horfa eigi til launaþróunar og framfærslu í öðrum félagslegum kerfum á Íslandi við ákvörðun framfærslunnar.

LÁN VEGNA HÚSNÆÐIS
Nauðsynlegt er að endurskoða lán vegna húsnæðiskostnaðar hjá LÍN. Einungis um 10% stúdenta Háskóla Íslands búa á Stúdentagörðum. Því þarf að taka mið af leiguverði á almennum markaði í auknum mæli við ákvörðun lánsupphæðar vegna húsnæðis. 

HÆKKUN FRÍTEKJUMARKS
Í síðustu úthlutunarreglum LÍN var frítekjumark námsmanna hækkað um 43% í 1.330.000 kr. eftir ötula baráttu stúdenta. Röskva krefst þess að frítekjumarkið sé í sífelldri endurskoðun og að það fylgi ávallt þróun launavísitölu á Íslandi hið minnsta. Sé ætlast til þess að námsmenn vinni með námi til að eiga fyrir framfærslu, líkt og nú, er eðlileg krafa að skerðingar námslána vegna tekna umfram frítekjumarks séu lágar. Röskva telur því 45% tekjuskerðingu líkt og nú vera of háa fyrir kerfi sem er þannig uppbyggt að stúdentar neyðast til að vinna með námi.

FRÍTEKJUMARK EFTIR NÁMSHLÉ
Stúdentar ættu að eiga kost á að fimmfalda frítekjumarkið eftir námshlé, í stað þreföldunar líkt og nú er.

                                              Nýtt frumvarp um Menntasjóð námsmanna

FJÁRFESTING Í MENNTUN
Röskva telur að sú pólitíska umræða sem skapar grundvöll fyrir breytingar á lánasjóðskerfinu eigi enn eftir að fara fram. Sú umræða fjallar um hversu mikið eigi að styrkja fólk til náms eða nánar tiltekið hve miklu hið opinbera á að verja í fjárfestingu í menntun. Ljóst er að fjármögnun menntakerfis er ein sú besta fjárfesting sem þjóð getur gert og hún skilar sér margfalt til baka. Lykilþáttur í því er að tryggja aðgengi að menntun og skipar þar lánasjóðskerfið stórt hlutverk.  

RÖSKVA VILL 40% NIÐURFELLINGU
Röskva fagnar því að í nýju frumvarpi um Menntasjóð námsmanna (MSN) sé að finna jákvæða hvata fyrir stúdenta með 30% niðurfellingu hluta skulda sé námi lokið innan ákveðins tíma. Röskva hefði þó viljað sjá 40% niðurfellingu líkt og er í Noregi.

RÖSKVA MÓTMÆLIR ÓÖRUGGU VAXTAUMHVERFI
Í nýju frumvarpi er gert ráð fyrir því að vextir verði ekki lengur 1% heldur verði vextir breytilegir. Vænta má þess að vextir á námslánum hækki í kjölfar þess. Röskva leggst gegn öllum hækkunum á vöxtum námslána og krefst þess að sett verði þak á vexti þar sem þessi breyting hefur í för með sér aukna óvissu fyrir lánþega og verri lánskjör

TEKJUTENGING AFBORGANA
Í nýja frumvarpinu er fyrirkomulagi tekjutengingar breytt svo aðeins þau sem ljúka námi fyrir 36 ára aldur eigi rétt á henni. Röskva leggst gegn þessu og telur nauðsynlegt að endurgreiðsla námslána sé tekjutengd svo sjóðurinn geti sinnt hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður. Röskva telur að hér sé verið að draga úr því að eldri einstaklingar hefji háskólanám sem grefur undan hugmyndum um símenntun í aðdraganda fjórðu iðnbyltingarinnar. Röskva telur að þetta muni hafa neikvæðar afleiðingar á félagslegan hreyfanleika og skerða jafnrétti til náms.

MÁNAÐARLEGAR GREIÐSLUR
Röskva hefur lengi talað fyrir því að námslán skuli greidd út mánaðarlega. Jákvætt er að komið sé til móts við þá kröfu í nýju frumvarpi. Stúdentar eiga ekki að neyðast til að framfleyta sér með töku yfirdráttar hjá bönkum meðan beðið er eftir afgreiðslu námslána.

ENDURGREIÐSLUR NÁMSLÁNA
Veita þarf nægilegt svigrúm fyrir fólk til að koma sér á fót að loknu námi. Sömuleiðis verður að vera möguleiki að taka hlé frá námi t.a.m. til að ákveða framhaldsnám. Því leggst Röskva gegn styttingu þess frests sem gefinn er frá námslokum þar til afborganir hefjast. Í frumvarpinu er lagt til að fresturinn verði 1 ár en Röskva vill halda 2 ára fresti líkt og í núverandi kerfi.

ÁLAG VEGNA AFFALLA
Röskva mótmælir því að gert sé ráð fyrir vaxtaálagi vegna væntra affalla. Þannig er kostnaði vegna þeirra lána sem ekki er greitt af velt yfir á greiðendur sem standa skil á sínum afborgunum. Röskva telur að ríkið eigi að bera áhættuna af afföllum í stað þess að auka vaxtagreiðslur þeirra sem borga af sínum lánum.

LÁNSHÆFAR EININGAR
Röskva leggst gegn því að lánshæfar einingar verði festar í 480 ECTS. Ófyrirséð er hvernig atvinnulíf og menntun breytist til framtíðar og því mikilvægt að sveigjanleiki sé til staðar. Röskva vill að í lögum um lánasjóðskerfið sé sett lágmark á fjölda lánshæfra eininga en ekkert hámark.

BARNASTYRKUR
Röskva fagnar því að í frumvarpinu sé lagt til að viðbótarlán vegna framfærslu barna og meðlagsgreiðslna verði beinn styrkur til foreldra. Með þessum breytingum væri foreldrum því ekki gert að skuldsetja sig meira en barnlausum til að geta menntað sig. Nauðsynlegt er að komið sé til móts við fjölmennan hóp foreldra í námi með þessum hætti. Röskva myndi enn fremur vilja að allir foreldrar fái styrk vegna framfærslu barna í námi, óháð því hvort lán er tekið.

SKIPAN Í STJÓRN LÁNASJÓÐSINS
Röskva ítrekar athugasemdir Stúdentaráðs við tilætlaðar breytingar á skipan í stjórn í nýju frumvarpi. Þar er lagt til að Landssamtök íslenskra stúdenta (LÍS) skipi þrjá fulltrúa og er þessi breyting er gerð án samráðs við stúdenta. Röskva telur varhugavert að lánasjóðsfulltrúi SHÍ, fulltrúi 13.000 stúdenta, eigi ekki fast sæti í stjórn MSN samkvæmt landslögum.