Lánasjóðsmál

ÞJÓNUSTA LÍN

Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) þjónar ekki hlutverki sínu sem félagslegur jöfnunarsjóður og vill Röskva að því verði breytt.

Röskva vill bætta þjónustu fyrir námsmenn hjá LÍN, aukið aðgengi að upplýsingum og þjónustufulltrúum og þá sérstaklega að nemendur fái útborgað á réttum tíma.

Röskva telur mikilvægt að bæta þjónustustig LÍN, til dæmis með því að framkvæma reglulega þjónustukönnun til að tryggja góða þjónustu sem Röskva telur skipta gríðarlegu máli þegar kemur að lánasjóðsmálum stúdenta.

LÁNASJÓÐSFRUMVARP

Röskva ítrekar mikilvægi þess að stúdentar hafi áfram sæti í starfshópi um endurskoðun laga LÍN.

Röskva vill að Stúdentaráð leiti til stúdenta þegar endurskoða á lög um lánasjóð íslenskra námsmanna. Þannig geti stúdentar komið málum á framfæri við gerð nýs lánasjóðsfrumvarps.

Röskva telur rétt að skoða möguleika á að lánasjóðskerfið feli í sér jákvæða hvata fyrir stúdenta, til dæmis ef námi er lokið innan ákveðins tíma, með niðurfellingu hluta skulda að námi loknu eða öðrum leiðum.

Röskva vill betra lánasjóðskerfi sem kemur ekki niður á núverandi lántakendum við Háskóla Íslands. Röskva vill styrkjakerfi sem styður við grunnhugsun Röskvu um jafnrétti náms, óháð félagslegrar stöðu.

Röskva leggur mikla áherslu á að í næsta námslánafrumvarpi verði tekjutenging afborgana ekki felld út.

Röskva leggur áherslu á að námslán safni ekki vöxtum fyrr en eftir námslok.

Röskva vill að í nýju lánakerfi verði aðlögunartími fyrir breytingar og að nemendum sem eru í núverandi kerfi verði gert kleift að halda áfram í því kerfi, óski þeir þess.

Röskva vill að skuldabréf lokist tveimur árum eftir námslok, ekki eftir eitt ár eins og gert var ráð fyrir í síðasta frumvarpi.

Röskva vill að afborganir á fyrri námslánum frestist ef lántaki skráir sig aftur í nám.

Röskva vill að greiðslur frá LÍN verði mánaðarlegar. Bankar eiga ekki að vera milligönguaðilar við veitingu námslána.

GRUNNFRAMFÆRSLA OG FRÍTEKJUMARK

Grunnframfræsla LÍN ætti að lágmarki að vera 100% af grunnviðmiði neysluviðmiða velferðarráðuneytisins. Einnig ætti lánasjóðurinn að líta til þróunar lágmarkslauna og annarra tekjuhópa á borð við atvinnuleysisbóta við ákvörðun grunnframfærslu námsmanna.

Röskva telur að LÍN eigi ekki að miða framfærslu við leiguverð á stúdentagörðum þar sem aðeins um 10% stúdenta Háskóla Íslands komast að í stúdentaíbúðum FS. Eðlilegra væri að taka mið af leiguverði á almennum markaði.

Röskva krefst þess að frítekjumark námslána verði hækkað og fylgi þróun launavísitölu í landinu.

Það er skýlaus krafa Röskvu að námslán skerðist hlutfallslega minna eftir að farið er fram úr frítekjumarki. Fjarstæðukennt er að skerða tekjur námsmanna um heil 45% þegar frítekjumarkinu er náð.

Röskva telur grunnframfærslu LÍN alltof lága og að nauðsynlegt sé að hækka hana tafarlaust. Ótækt er að grunnframfærsla nemenda fylgi ekki öðrum viðmiðum ríkisins um framfærslu annarra hópa.

Stúdentar ættu að eiga kost á að fimmfalda frítekjumarkið eftir námshlé, í stað þreföldunar eins og nú er.

Stúdentar sem koma beint úr framhaldsskóla ættu einnig að eiga kost á því að fimmfalda frítekjumarkið.  

LÁNSHÆFAR EININGAR OG NÁMSFRAMVINDA

Röskva krefst þess að lánshæfar einingar verði 600 ECTS í stað 480 eins og er í dag.

Röskva vill að foreldrar í námi hafi rétt á því að framfærsla barna þeirra sé tryggð. Þannig að börn námsmanna þurfi ekki að stóla á að foreldri/foreldrar nái 22 ECTS einingum til að forðast fátækt.

Röskva telur námsframvindukröfu LÍN vera of háa. Námsframvinduna ætti að lækka niður í 18 ECTS einingar eins og áður.