Umhverfis- og samgöngumál

Röskva vill sama verð í Strætó fyrir alla stúdenta
Röskva vill að öllum stúdentum Háskóla Íslands bjóðist sömu kjör á fargjöldum óháð búsetu, sem ekki er raunin í dag. Tryggja þarf að nemendur með lögheimili utan höfuðborgarsvæðisins fái stúdentaafslátt af strætókortum. Röskva krefst þess að sveitarfélögin styðji við stúdenta frá sínu svæði og komi þannig til móts við Strætó BS. Röskva mótmælir frekari verðhækkunum á stúdentakortum og mun beita sér fyrir áframhaldandi samgöngum milli Suðurnesja og Höfuðborgarsvæðisins. Fyrir nemendur sem stunda nám við Keili eru samgöngur gríðarlega mikilvægar.

Skiptakort í strætó á lágu verði fyrir stúdenta
Röskva vill halda áfram að þrýsta á sveitarfélög og Strætó BS að setja af stað skiptakort fyrir stúdenta. Skiptakortið yrði þá á lægra verði en stakir miðar og myndi henta þeim stúdentum betur sem nota strætó af og til.

Almenningssamgöngur þurfa að vera aðgengilegar
Röskva vill strætókerfi sem stúdentar geta nýtt sér. Röskva mun áfram þrýsta á að Strætó BS taki upp markvissari hraðleiðir til að strætó geti einnig nýst sem hraður samgöngukostur milli staða. Röskva vill einnig berjast fyrir háskólalínu, strætó sem keyrir eingöngu á milli mismunandi bygginga HÍ og HR. Sér í lagi Háskólatorgs, Læknagarðs, Eirbergs og Stakkahlíðar.

Greiðari gönguleiðir milli háskólabygginga
Röskva vill að gönguleiðir milli háskólabygginga séu greiðar og öruggar, m.a. með bættri lýsingu. Þannig komast vegfarendur hraðar á milli bygginga og þurfa síður að notast við ökutæki. Fjölga þarf gönguleiðum milli bygginga háskólasvæðisins.

Bætt aðstaða og aðgengi fyrir hjólreiðafólk
Röskva vill gera hjólreiðar að ákjósanlegum samgöngukosti fyrir stúdenta. Yfirbyggðar hjólageymslur ættu að vera til staðar við hverja byggingu ásamt aðgengilegri sturtuaðstöðu alls staðar á háskólasvæðinu. Stórbæta þarf aðgengi að hjólastígum á öllu háskólasvæðinu og halda þeim greiðfærum yfir vetrartímann. Til fyrirmyndar væri að hafa aðstöðu til viðhalds og viðgerða á hjólum á háskólasvæðinu.

Hjólaleiga við Háskólann
Röskva vill koma upp hjólaleigu á háskólasvæðinu. Hjólaleiga er ákjósanlegur kostur fyrir þá sem þurfa t.d. að ferðast á milli háskólasvæðisins og Eirbergs, Læknagarðs og Stakkahlíðar.

Lögum hraðahindrunina við Sæmundargötu
Röskva vill að hraðahindrunin við Sæmundargötu, til móts við Odda, verði löguð þar sem hún er skaðræði fyrir þá bíla sem yfir hana keyra. Röskva hefur komið þessu áleiðis til borgaryfirvalda en þau hafa ekkert aðhafst.

Samnýting bíla sem vistvænni ferðamáti fyrir stúdenta.
Röskva leggur til að fyrirtæki með deilibílaþjónustu fjölgi vistvænum bílum fyrir háskólanema til skammtíma- og langtímaleigu. Röskva telur einnig upplagt að komið verði á fót vettvangi fyrir háskólanema til að sameinast í bíla og nýta þar með betur ferðir á einkabílum í háskólann eða jafnvel í matvöruverslanir. Einnig krefst Röskva þess að hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla verði komið upp á háskólasvæðinu.

Röskva vill græna stúdentagarða
Röskva álítur að vistvænir stúdentagarðar séu raunhæf framtíðarsýn og vill að Stúdentagarðarnir séu fyrirmynd annarra heimila hvað varðar endurvinnslu, vistvænar samgöngur og aðra sjálfbæra lifnaðarhætti. Röskva vill að Garðarnir hafi fleiri endurvinnslukosti og má þar helst nefna flokkun á lífrænum úrgangi, gleri og áli.

Efla má endurvinnslu enn frekar
Röskva fagnar áherslu Háskóla Íslands á endurvinnslu og vill sjá enn frekari eftirfylgni og þróun á því sviði. Fækka mætti tunnum fyrir almennt rusl og fjölga skilastöðvum fyrir margnota matar- og drykkjaráhöld. Einnig ætti að vera staður fyrir tóma flatbökukassa í öllum byggingum háskólans. Þar að auki ætti fræðsla um flokkunarkerfið að vera áhersluatriði í nýnemakynningum allra deilda. Mikilvægt er að fá Þjóðarbókhlöðuna og Háskólabíó meira í takt við umhverfisviðmið Háskóla Íslands. Bæta þarf aðgengi að endurvinnslu, merkja lok með áferð fyrir blinda og lækka tunnur fyrir hreyfihamlaða.

Röskva vill græn kaffikort
Röskva vill að stúdentar séu hvattir til umhverfisvænni lifnaðarhátta og leggur til að boðið verði upp á græn kaffikort í Hámu þar sem stúdentar fá ódýrara kaffi ef þeir koma með eigin fjölnota ílát.

Grænn Háskóli
Röskva vill að Háskóli Íslands sé í fararbroddi á öllum sviðum umhverfismála. Háskólinn á að hvetja til umhverfisverndar og umhverfisvænni lifnaðarhátta, til dæmis með því að auka rafræn skil verkefna.

Röskva hvetur til aukinnar notkunar rafrænna námsgagna og að þau verði alltaf notuð þegar kostur er. Röskva vill að Háskóli Íslands hugi strax að næsta Græna skrefi við lok fyrsta Græna skrefsins í byrjun febrúar og taki jafnframt þátt í verkefnum á borð við Grænfánann. Röskva telur einnig nauðsynlegt að starfshlutfall verkefnastjóra sjálfbærni- og umhverfismála innan Háskóla Íslands sé hækkað í 100%.

Röskva vill auka úrval af vegan fæði í Hámu
Röskva vill áfram berjast fyrir því að boðið verði upp á fjölbreyttara úrval af vegan fæði í Hámu og í sjálfsölum á háskólasvæðinu. Úrvali af vegan og grænmetisfæði er stórlega ábótavant innan háskólans.