Allt er pólitík

Röskva Pistlar

Elísabet Brynjarsdóttir, oddviti Röskvu.

Nú er rúmt ár síðan Röskva sigraði kosningar eftir átta ár í minnihluta í Stúdentaráði. Rauði þráðurinn í starfi Röskvu hefur ávallt verið jafnrétti allra til náms og hefur síðastliðið starfsár einkennst af því. Árið var ekki laust við erfiðleika en eftir þennan lærdómsríka tíma eru stúdentaráðsliðar Röskvu þó allir sammála um eitt: málefnin eru það sem skiptir máli og við getum knúið fram raunverulegar breytingar sem hafa áhrif á náms- og lífsgæði stúdenta við Háskóla Íslands.

Pólitík. Enginn lítur þetta orð sömu augum. Sumir segjast vera ópólitískir og aðrir telja orðið óvinsælt meðal ungs fólks. Suma stúdenta hryllir jafnvel við hugsuninni um stúdentapólitík og sjá fyrir sér fundi Stúdentaráðs sem leikhús stúdenta, sandkassaleik og fylkingaríg. En tími stúdentaráðsliða á ekki að nýtast í slíka hluti. Hagsmunabarátta er óneitanlega pólitísk: uppbygging stúdentagarða, bætt geðheilbrigðisþjónusta, bætt aðstaða til náms, umhverfisvænni ferðamátar, fjölbreyttara matarúrval í Hámu og jafnrétti allra til náms. Að standa upp fyrir bættum hag stúdenta er ekkert annað en pólitík, það þarf að þrýsta á að yfirvöld sem og Háskólinn geri úrbætur. Öllu þessu hefur Röskva unnið að undanfarið starfsár og stórir sigrar unnist.

Við í Röskvu veigrum okkur ekki við að taka þátt í pólitískri hagsmunabaráttu eða að krefjast bættra úrræða fyrir nemendur. Við munum halda ótrauð áfram að vinna að því sem skiptir raunverulega máli, með þínum stuðningi.