„Átt þú heima í Röskvu” eftir Stellu Rún Guðmundsdóttur

Atli Elfar Helgason Pistlar

Þegar ég hóf göngu mína í Háskóla Íslands hafði ég óljósar hugmyndir um starfsemi Röskvu. Ég hafði reyndar flotið með á Svitaball Röskvu árið áður og dansað í hópi skælbrosandi Röskvuliða. Samheldnin í hópnum hreif mig og ég vissi að mig langaði að tilheyra þessari heild þó ég hefði ekki hugmynd um hvað þau stæðu fyrir annað en að halda lífi í afleitasta klæðnaði 8. áratugarins.

Í haust lét ég svo slag standa og mætti á minn fyrsta Röskvufund. Ég get ekki neitað því að hafa verið stressuð; hvaða forsendur hafði ég fyrir því vera þarna? Röskva tók mér hins vegar opnum örmum. Þau hvöttu mig til þess að taka þátt og í ljós kom að ég hafði mun sterkari skoðanir á þessum málefnum en ég gerði mér grein fyrir. Eldmóður Röskvu fyrir jöfnum tækifærum allra til náms sannfærði mig um að ég væri á réttri hillu. Mér varð fljótt ljóst að stúdentapólitík kemur okkur öllum við enda málefni sem varðar hag allra nemenda.

Nú veltirðu eflaust fyrir þér kæri háskólanemi af hverju Röskva ætti að verða fyrir valinu. Svarið við því liggur í eðli Stúdentaráðs. Stúdentaráð eru hagsmunasamtök nemenda. Þögn hagsmunasamtaka er það sama og samþykki þeirra. Vegið hefur verið að kjörum okkar nemenda með hækkun matar- og bókaskatts en Stúdentaráð hefur ekki látið í sér heyra. Röskva gerði það hins vegar. Þetta er hávær fylking sem hikar ekki við að gagnrýna ákvarðanir teknar þvert á hag nemenda og lætur ekki deigan síga.

Röskvuliðar eru nefnilega ekki einungis léttir á fæti heldur einnig eitthvert metnaðarfyllsta fólk sem ég hef kynnst. Hvort sem baráttan er fyrir nýrri kaffivél, betra aðgengi fólks með fötlun eða auknu fjármagni til Háskóla Íslands, slá þeir ekki slöku við. Þeir vinna baki brotnu við að bæta hag nemenda og vera á varðbergi fyrir öllu því sem betur mætti fara og nú get ég með stolti kallað þetta fólk vini mína.

Þessa grein er einnig að finna í kosningablaði Röskvu