„Ber er hver að baki nema sér bróður eigi” eftir Elís Orra Guðbjartsson, kosningastjóra Röskvu

Atli Elfar Helgason Pistlar

Allt frá stofnun Stúdentaráðsins árið 1920 hefur það starfað sem þrýstiafl, barist fyrir hagsmunum stúdenta og verið þeirra málsvari gagnvart þeim sem áhrif hafa á stefnu háskólans. Í dag skiptist Stúdentaráðið í fimm sviðsráð, sem innihalda 27 manns í heildina. Fjögur þeirra hafa fimm einstaklinga hvert en félagsvísindasviðsráðið, stærsta sviðið, sjö.

Líkt og stéttarfélög starfa fyrir landsmenn, þá starfa Stúdentaráðsliðar fyrir nemendur – sendimenn hugmynda. Þeir starfa í þínu umboði, í okkar umboði, og ber skylda að gefa rödd nemenda byr undir báða vængi. Þeim ber skylda að leyfa rödd nemenda að hefja sig á loft og veita hugmyndum okkar brautargengi. Þeim ber skylda að bera hag okkar í brjósti og tryggja stöðu nemenda í samfélaginu hverju sinni.

Hið síbreytilega Stúdentaráð, sem tekur á sig nýja mynd frá ári til árs – enda mótast það af einstaklingunum sem þar sitja hverju sinni, er síður en svo gagnslaust og ónothæft enda afkastað gríðarlegu í þágu stúdenta síðastliðin ár. Þar standa Stúdentagarðar, þar sem undirritaður lifir í draumi og dregur hvergi mörkin dags og nætur, stofnun LÍN, sem tryggir undirrituðum salti í grautinn, og lengdur opnunartími Þjóðarbókhlöðunnar, sem undirritaður mætti vera duglegri að stunda, fremst meðal jafningja.

Þó líði ár og öld er hægt að ganga að því vísu að barátta Stúdentaráðsins er stanslaus og því nauðsynlegt að horfa í kringum sig og átta sig á því hvað betur mætti fara. Nú á tímum þar sem stöðugt virðist herjað á stúdenta, m.a. hækkun virðisaukaskatts á mat og bækur og síendurteknar kjaradeilur ýmist kennara eða prófessora, hefur oft verið þörf á áreiðanlegu og afkastamiklu Stúdentaráði með bein í nefinu en nú er nauðsyn.

Ef ég ætti eina ósk þá vitið þið hvers ég myndi óska mér.

Án Stúdentaráðsins væri engin hagsmunagæsla, ekkert þrýstiafl, enginn riddari götunnar – því ber er hver að baki nema sér bróður eigi.

Þessi grein birtist einnig í kosningablaði Röskvu