Búum í haginn fyrir komandi kynslóðir

VefstjoriRoskvu Pistlar

Sigurður Ýmir Sigurjónsson, oddviti Röskvu á Heilbrigðisvísindasviði.

Heilbrigði. Inn í þessu orði býr ótalmargt sem stendur okkur nærri. Heilbrigði til þess að vinna. Heilbrigði til þess að takast á við daglegar athafnir. Heilbrigði til þess að geta hlegið, brosað og átt góðan dag með ástvinum og fjölskyldu. Við á Heilbrigðisvísindasviði erum hér til þess að efla heilbrigði landsmanna og erum skjöldur á milli heilbrigðis og óheilbrigðis. Við getum verið stolt af því að menntunin okkar er góð og skilar af sér einstaklingum sem eru reiðubúnir til að takast á við hin ýmsu heilbrigðisvandamál sem upp geta komið á þessari litlu eyju.

Röskva vann stórsigur í síðustu kosningum og bauð þar upp á öfluga einstaklinga sem hafa unnið mikið að málefnum á sviði geðheilbrigðismála – en geðheilbrigði er búið að hvíla þungt á tungu landsmanna undanfarna mánuði. Eitt hefur þó hvílt þungt á huga mínum og það er minnihlutahópur í samfélaginu sem Heilbrigðisvísindasviðið virðist ekki hafa mikinn áhuga á að fræða nememendur um.. Það eru hinsegin einstaklingar. Þegar kemur að heilbrigðisvísindum þá eru hinsegin einstaklingar útsettir fyrir rangri orðanotkun, þ.e. það er gert lítið úr þeim eða ekki tekið mark á þeirra upplifun. Einstaklingar sem eru trans eða intersex eru þar sérstaklega viðkvæmir og erlendar rannsóknir sýna fram á að þriðjungur transfólks sem fær ófullnægjandi heilbrigðisþjónustu upplifir alvarlegt þunglyndi og tíðar sjálfsvígshugsanir. Eitt af mínum markmiðum er að ná hinseginfræðum inn í námsskrá heilbrigðisvísinda auk þess að leggja áframhaldandi áherslu á geðheilbrigði.

Undanfarið ár hef ég verið hagsmunafulltrúi hjúkrunarnema og fulltrúi þeirra í NSSK (Nordiske Sykepleier Studenters Kontaktforum) sem er sameiginlegur vettvangur norrænna hjúkrunarnema þar sem við ræðum ýmis vandamál og hvernig við getum aðstoðað hvort annað við að leysa úr þeim. Staða mín og reynsla sem hagsmunafulltrúi gefur mér góða yfirsýn um hvað brennur helst á nemendum hvað varðar námið og staða mín sem fulltrúi í NSSK gefur mér góðar hugmyndir um hvað má lagfæra í sambandi við námið hérna heima. Í NSSK eru í bígerð tillögur hvað varðar klínískt nám, þar sem lagðir verða fram 5 staðlar sem óskað er eftir að hjúkrunarfræðideildir reyni að uppfylla. Mín ósk er sú að þessir staðlar verði tilbúnir á næstu mánuðum og ég geti notað stöðu mína með styrk Röskvu á bak við mig til að þrýsta þessum stöðlum inn á Heilbrigðisvísindasvið við Háskóla Íslands.

Síðasta sumar hafði Elísabet, oddviti Röskvu, samband við mig og boðaði mig á deildarráðsfund þar sem umræðuefnið var veikindaréttur hjúkrunarnema í klínísku námi. Áður fyrr þá var veikindarétturinn enginn og gerð var krafa um 100% mætingu í klíník. Eftir góða umræðu þar sem Elísabet var leiðandi með stuðning frá mér þá féllst deildin á að lækka mætingarskylduna niður í 95%. Þar var stór sigur unninn og tekið var skref í átt að gera mætingarskyldu í klíník sambærilega við aðrar Norðurlandaþjóðir. 95% mætingarskylda telst ennþá vera mikið en í 3 vikna klíník samsvarar það sér til hálfrar vaktar. Við munum ekki stoppa þar og stefnum á að veikindarréttur sé sambærilegur við hjúkrunarnámið í Háskólanum á Akureyri – þar vinnur stúdent sér inn hálfan veikindadag fyrir hverja viku í klíník.

Staðan er enn sú að Heilbrigðisvísindasviðið er undirfjármagnað og fjármagn er oft forsenda breytinga. Við sem notendur sviðsins þurfum því að hafa opinn hug um það hvernig hægt sé að vinna með það sem er í boði en jafnframt hafa járnhnefa á lofti og heimta betrumbætur á því sem er óviðunandi. Það er óviðunandi að háskólar séu reknir á lágmarks fjármagni. Það er óviðunandi að Landspítali skuli þurfa að fjármagna klíníska kennslu stúdenta. Það er óviðunandi að leiðbeinendur í klínísku námi fái ekkert fyrir sinn snúð annað en aukið álag. Beita þarf afli á mörgum sviðum og við sem stúdentarerum afl. Við knýjum betrumbætur og köllum til betri framtíðar. Það er í höndum mínum og þínum að taka við þeim kyndli sem kollegar okkar á undan okkur hafa haldið á lofti og skila honum bjartari og sterkari til næstu kynslóðar. Í styrk – í heilbrigði – í Röskvu. Hnefann á loft!