„Dropinn sem fyllir hafið” eftir Valgerði Bjarnadóttur

Atli Elfar Helgason Pistlar

Álit háskólanemenda á stúdentapólitík er misjákvætt. Sumir eiga erfitt með að sjá tilgang með Stúdentaráði og álíta það jafnvel eintóman skrípaleik og framapot. Flestir sem hafa kynnt sér málin átta sig þó á því að Stúdentaráð er mikilvægt þrýstiafl og í raun einn af fáum möguleikum nemenda til að láta rödd sína heyrast. Háskólanemendur eiga sér engann talsmann á Alþingi og því er mikilvægt að hafa sterkt afl sem hefur hagsmuni stúdenta að leiðarljósi.

Áður en ég hóf störf með Röskvu hafði ég í raun litla hugmynd um hvað það væri sem Stúdentaráð gerði. Í Röskvu- og Stúdentaráðsstarfinu kynntist ég þessu hins vegar á eigin skinni og komst að því að Stúdentaráð getur haft áhrif bæði innan skóla sem utan. Undanfarið skólaár hef ég setið í Sviðsráði Heilbrigðisvísindasviðs og höfum við unnið að ýmiss konar verkefnum og hafa mörg þeirra haft það að leiðarljósi að vekja athygli á bágri stöðu heilbrigðiskerfisins.

Sviðsráðið sem starfaði árið á undan okkur gerði í fyrsta skipti verknámskönnun til að kanna ánægju verknámsnemenda við Landspítala háskólasjúkrahús (LSH). Þessi könnun fékk töluverða umfjöllun í fjölmiðlum vegna mikillar óánægju nemenda og t.d. gátu aðeins 8 % verknámsnemenda hugsað sér Landspítalann sem sinn framtíðarvinnustað. Í kjölfar þessarar könnunar fengust kjarabætur fyrir nemendur og fólust þær í niðurgreiddum mat í mötuneyti LSH og betra skipulagi bólusetninga. Í ár endurtókum við könnunina í sömu mynd en bættum við spurningum, t.d. um hvort vilji væri fyrir nýjum Landspítala. Niðurstöður könnunarinnar voru áþekkar árinu áður, þrátt fyrir kjarabæturnar voru nemendur enn óánægðir; fáir sáu LSH fyrir sér sem sinn framtíðarvinnustað og viðhorf nemenda til heilbrigðiskerfisins var almennt neikvætt. Þá voru langflestir nemendur jákvæðir gagnvart byggingu nýs Landspítala.

Niðurstöður þessar fengu töluverða umfjöllun í fjölmiðlum landsins auk þess sem við skrifuðum greinar um málið. Í kjölfarið sendum við Páli Matthíassyni, forstjóra LSH, og menntamála- og heilbrigðismálaráðherra skýrslu með niðurstöðum könnunarinnar. Einnig hittum við Pál á fundi og kynntum niðurstöðurnar fyrir honum. Hann lýsti yfir ánægju með úttektina og þá sérstaklega á afstöðu gagnvart nýjum Landspítala því ráðherrar höfðu áður skýlt sér bakvið gamla könnun sem sýndi hið gagnstæða. Einnig unnum við plakat með myndum af nemendum úr öllum deildum auk setninga um ástand og framtíð heilbrigðiskerfisins sem voru unnar upp úr könnuninni. Við söfnuðum styrkjum og birtum þetta plakat sem heilsíðu í Fréttablaðinu og skoruðum á stjórnvöld að bregðast við og bjarga íslensku heilbrigðiskerfi.

Reynsla mín af Stúdentaráði hefur sannfært mig um mikilvægi þess frekar en hið gagnstæða. Að sjálfsögðu upplifir maður sig stundum lítilsmegnugan í hinum stóra heimi en það er samt sem áður mikilvægt að láta í sér heyra því það kemur á óvart hversu margir eru tilbúnir til að hlusta. Vinna Sviðsráðs er kannski aðeins dropi í hafið en hver veit nema að það verði dropinn sem fyllir hafið.

Þessa grein er einnig að finna í kosningablaði Röskvu