„Eiga diplómanemar ekki skilið sömu réttindi?” eftir Michel Thor Masselter

Atli Elfar Helgason Pistlar

Ég vel Röskvu af því ég vil jafnrétti í skólamálum.

Allir nemendur Háskóla Íslands ættu að útskrifast á sama tíma en þegar kemur að útskriftarathöfninni, þá erum við diplómanemar einir og sér í Stakkahlíðinni. Diplómanám er hæsta stig menntunar sem er í boði fyrir fólk með þroskahömlun og að svo stöddu sitja ekki allir við sama borð innan Háskóla Íslands.

Í flestum deildum er námið til þriggja ára en hjá okkur í diplómanámi er það bara tvö ár, ég vil sjá til þess að í framtíðinni fáum við að læra jafn lengi.

Það ætti einnig að hleypa fólki með þroskahömlun í nám við Háskóla Íslands á hverju ári en ekki aðeins á tveggja ára fresti, eins og staðan er núna. Jafnrétti á alltaf að vera fyrir stafni þegar kemur að menntamálum og vissulega hefur ástandið skánað á seinustu árum, en gott má gera betur. Hjólastólaaðgengi í Stakkahlíð ætti að vera við allar dyr en ekki aðeins í helmingi allra innganga.Einnig þarf fleiri merkingar fyrir fólk með sjónskerðingu og blindu á háskólasvæðinu, eins og til dæmis kvöldljós svo auðveldara sé að komast leiðar sinnar að kvöldi til.

Allir ættu að hafa möguleika á því að stunda nám við Háskóla Íslands og ég vona að ekki verði langt í það að komið verði fram við diplómanemendur á sama hátt og gert er við aðra nemendur Háskóla Íslands