Er Stúdentaráð bitlaust vopn í baráttu stúdenta?

Atli Elfar Helgason Pistlar

Kæri stúdent.

Frá árinu 1988 hefur Röskva, samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands, boðið fram efnilegt og frambærilegt fólk á lista til setu í Stúdentaráði. Röskva hefur alla tíð lagt höfuðáherslu á jafnrétti allra til náms í hagsmunabaráttu sinni í þágu stúdenta og hefur sú stefna endurspeglast í þeirri vinnu sem Röskvuliðar hafa unnið af hendi innan Stúdentaráðs. Þær árlegu kosningar sem nú fara fram og úrslit þeirra munu því leiða í ljós hvers konar afl mun verða við völd í hagsmunabaráttu stúdenta næsta árið og hvaða áherslur munu þar liggja að baki.

Stúdentaráð er baráttutæki sem sinnir hagsmunagæslu stúdenta og þangað eiga stúdentar að geta leitað ef þeir telja brotið á rétti sínum. Stúdentaráð Háskóla Íslands er í forsvari fyrir um 15 þúsund nemendur sem stunda nám við skólann en í því felst að sjálfsögðu mikil ábyrgð. Nemendur skólans eru gríðarlega fjölbreyttur hópur og því krefst hagsmunagæsla af slíku tagi mikillar vinnu og eljusemi svo vel megi takast til. Hættan í dag er hins vegar sú að Stúdentaráð starfi í umboði of fárra stúdenta sem getur sett strik í reikninginn og dregið úr trausti þess. Hættan birtist í dræmri kosningaþátttöku undanfarinna ára en í fyrra kaus einungis um helmingur allra þeirra 15 þúsund nemenda sem voru á kjörskrá.

Til þess að Stúdentaráð hafi sem fjölbreyttastan hóp á bak við sig á komandi skólaári vil ég biðla til þín, kæri stúdent, að nýta atkvæðisréttinn og styrkja þannig við bakið á Stúdentaráði. Sért þú í vafa um hvort að Stúdentaráð hafi í raun og veru áorkað einhverju í gegnum tíðina þarf ekki að leita langt yfir skammt. Stúdentakjallarinn er gott dæmi um hugmynd sem Stúdentaráð vann að og varð síðar að veruleika. Kjallarinn er byggður eftir að ég hóf háskólanámið mitt en mér er guðs lifandi ómögulegt að sjá fyrir mér háskólalóðina án hans. Fjölgun stúdentaíbúða hefur einnig verið baráttumál Stúdentaráðs og hefur fjöldi þeirra aukist hægt, en örugglega undanfarin ár. Háskólabúðin á Sæmundargötunni hefur einnig sett svip sinn á Stúdentagarðana en hugmyndin að henni kemur einmitt frá Stúdentaráði og ef ekki væri fyrir vinnu Stúdentaráðs væru klippikort fyrir kaffi í Hámu sennilegast fjarlægur draumur. Þessi upptalning er langt frá því að vera tæmandi en gefur engu að síður góða mynd af þeim fjölmörgu og fjölbreytilegu hagsmunamálum sem Stúdentaráð hefur unnið að í þágu stúdenta.

Áherslur Stúdentaráðs fyrir skólaárið 2016-2017 munu kristallast í þeirri stefnu sem sigurvegari kosninganna hefur markað sér. Það er í þínum höndum kæri stúdent að taka upplýsta ákvörðun í komandi kosningum, einu skiptir hvað þú ert að læra, hvort þú teljir hagsmunagæslu stúdenta ekki koma þér við eða á hvaða aldri þú ert. Hagsmunir stúdenta varða alla þá sem stunda nám við Háskóla Íslands, ekki einungis þann fámenna hóp sem situr í Stúdentaráði.

Stúdentaráð er ekki bitlaust vopn í hagsmunabaráttu okkar og því er mikilvægt að við stjórnvölinn sé fólk sem hefur félagshyggju og jafnrétti að leiðarljósi.

Nýtum atkvæðisréttinn!

-Ívar Vincent Smárason, Stúdentaráðsliði 2014-2016 f.h. Röskvu