„Fjöðrin sem gæti orðið að hænu” eftir Sunnu Mjöll Sverrisdóttur, oddvita Röskvu

Atli Elfar Helgason Pistlar

Nú hef ég setið sem oddviti Röskvu í Stúdentaráði í næstum ár. Ég hef kynnst frábæru fólki í báðum fylkingum og lært heilan helling af þessu öllu saman. Ég hef tekist á við áskoranir, kvatt alla feimni og boðið aukinn kjark velkominn. Þrátt fyrir að það sé gott og gilt að hagsmunabarátta stúdenta fílefli fólkið sem tekur þátt í henni, þá snýst hún ekki um það. Hún snýst um að standa vörð um gæði Háskólans og þá nemendur sem skólann sækja. Það eru óteljandi mál sem koma upp, sum stór og önnur minni. Við erum í rifrildinu endalausa við stjórnvöld þar sem reglulega koma upp hugmyndir um skólagjöld við HÍ, frekari niðurskurð í LÍN, hækkun á matar-og bókaskatti og fleira óskemmtilegt sem hamlar fólki að stunda háskólanám.

Þegar ég lít yfir árið sé ég mjög margt gott. Ég sé fleiri Stúdentagarða, aukið fjármagn til HÍ í seinni umræðu fjárlaganna og großartig Oktoberfest. Ég sé marga góða hluti en á liðnu ári hef ég hugsað mikið um það hvernig hægt væri að fá Stúdentaráð til að virka sem allra best. Hvernig er hægt að nýta þetta fjármagn sem okkur er falið til að geta ávallt tekið þá ákvörðun sem er næst því að vera réttust. Þið, kæru kjósendur, eruð að kjósa um það hver á að leiða baráttu ykkar hagsmunamála. Sá meirihluti sem þið kjósið fær til umráða 300% stöðugildi. Þessum stöðum er skipt niður á formann, varaformann og lánasjóðs-og hagsmunafulltrúa SHÍ sem meirihluti skipar. Einnig skiptist stöðugildið á auglýstar stöður ritstjóra Stúdentablaðsins og framkvæmdastjóra SHÍ, og jafnvel þó minnihlutafylkingar fái fólk inn í Stúdentaráð, þá fá þær oft lítið að segja í þeim aðalmálum sem rædd eru á skrifstofu Stúdentaráðs. Þau mál rata jafnvel ekki nógu fljótt til sitjandi Stúdentaráðsliða, sem koma síðan af fjöllum á mánaðarlegum Stúdentaráðsfundum.

Þetta viljum við koma í veg fyrir. Við viljum ekki að launaðar stöður falli einvörðungu til meirihlutans. Við viljum að þær stöður endurspegli að einhverju leyti niðurstöður kosninga. Við viljum nýta það að fylkingarnar séu stundum ósammála og fá þannig fjölbreytta stjórn sem tekur réttari ákvarðanir. Ef við sigrum yfirvofandi kosningar ætlum við því ekki einungis að auka gegnsæi til hins óbreytta nemenda, heldur ætlum við að hefja samstarf fylkinga af fullri alvöru. Því við erum öll að vinna að því sama og verðum að muna hvert við ætlum að beina spjótum okkar. Fjöður hænsnis gerir lítið gagn sem slík ef hún liggur stök og fýkur eflaust burt áður en langt um líður. Ef við skellum hinsvegar þeim mörgum saman og hlúum að einni stórri Stúdentaráðshænu þá getum við séð ótrúlegan árangur í hagsmunabaráttunni.

Þessa grein er einnig að finna í kosningablaði Röskvu