Framapot og máttlaus barátta?

VefstjoriRoskvu Pistlar

Pétur Geir Steinsson, oddviti Röskvu á Hugvísindasviði.

Síðastliðið ár hef ég verið stúdentaráðsliði hjá SHÍ, og auk þess setið í sviðsráði Hugvísindasviðs. Hlutverk Stúdentaráðsliða er að reyna tala máli nemenda í nauðsynlegum og oft gífurlega erfiðum baráttumálum sem snerta okkur jafnt nú sem og til framtíðar. Slík alhæfing kann að virka dramatísk í ljósi þess að stúdentabaráttan fær gjarnan á sig slæmt orð sem ómerkilegt framapot eða úrkynjuð, máttlaus og ofurkrataleg barátta sem skilar litlu sem engu. Þó talar reynsla mín, á liðnu ári, allt öðru máli. Valdefling nemenda, frá upphafi stúdentabaráttunnar hérlendis, er enn í fullum gangi. Þrotlaus barátta fyrir uppbyggingu nýrra stúdentagarða, auknu fjármagni Háskólans og auknum úrræðum fyrir nemendur eru öll verulega verðug og mikilvæg baráttumál þar sem aðkoma stúdenta er ekki bara þýðingarmikil heldur nauðsynleg. Slík barátta varðar okkur öll og hefur áhrif á samfélagið gjörvallt.

Nærumhverfið er ekki síður mikilvægt – enda þar sem við getum haft  áhrif á upplifun nemenda við skólann. Þar standa enn frammi fyrir okkur raunir sem snúa að bættu námi og námsumhverfi, eins og upptökur í tímum (umræða sem er komin í góðan farveg), að auka samvinnu við nemendafélög (sem bætir námsumhverfi nemenda), að viðhalda og bæta nemendarými ásamt auðvitað áframhaldandi aðhaldi við kennara og kennslu innan sviðsins.

Svo framarlega sem eitthvað má bæta við gæði náms og námsumhverfis munum við brenna fyrir því og beita öllu því hug-, verk- og siðviti sem þarfnast til að færa nemendum það sem þeir eiga skilið til að búa sig undir framtíðina.