Miskynjað af kerfinu

Atli Elfar Helgason Pistlar

Í sumar lagðist ég í það verkefni að kynna mér aðstöðu trans fólks, bæði innan heilbrigðiskerfisins og samfélagsins almennt. Eitt af því sem sló mig mest er að á ýmsum stöðum eru þessir einstaklingar rangnefndir og jafnvel miskynjaðir af kerfinu. Lánaþjónustur, bankar, apótek – og Strætó, til að nefna nokkur dæmi, fylgja því nafni sem bundið er við kennitöluna í þjóðskrá. Ómögulegt er að breyta því fyrr en eftir læknisfræðilegt mat og ferli sem tekur 18 mánuði í það minnsta. Það þola ekki allir það ferli eða hafa ekki enn klárað það svo víða miskynjar kerfið þau. Þannig er það líka innan Háskóla Íslands, eins og stendur.

Ég gerði mér því leið upp í nemendaskrá og athugaði hvort til væri leið fyrir þessa einstaklinga að ganga undir réttu nafni innan veggja skólans, á skólaskírteininu, á spjallborði Uglu, í Moodle prófum, verkefnaskilum og á prófaúrlausnum. Viðbrögðin voru jákvæð af hálfu þjónustustjóra sem tók á móti mér, sem og jafnréttisnefnd, reiknistofnun og nemendaskrá. Hindrunin hafði áður verið sú að nemendaskrá samkeyrði Uglu við þjóðskrá einu sinni á sólarhring svo engar breytingar haldast inni í kerfinu. Nýlega hefur Háskólinn þó hætt að sækja um íslenska (kynjaða) kennitölu með áfestu nafni fyrir erlenda nemendur, heldur var fundin leið til að búa til kennitölulausa aðganga. Tæknilega séð er þetta því möguleiki – sem er fagnaðarefni fyrir þá sem eiga í vandræðum með heilbrigðiskerfið, þjóðskrá og/eða mannanafnanefnd. Eina hindrunin sem stendur eftir í vegi er bið eftir áliti lögfræðinga á þessari stefnu; hvar notkun á lagalegu nafni er óhjákvæmileg. Við munum þrýsta á að þeir komist að sanngjarnri niðurstöðu sem fyrst, svo fólk þurfi ekki að koma út úr skápnum þegar það vill nýta sér stúdentaafsláttinn á kaffi í Hámu eða á bjórnum á Stúdentakjallaranum. Næsta stopp: Strætó.

-Birkir, gjaldkeri Röskvu 2015-16

Þessi grein birtist fyrst í haustblaði Röskvu sem má lesa hérna.