„Rauði þráðurinn: Allir ættu að sitja við sama borð” eftir Heiði Önnu Helgadóttur

Atli Elfar Helgason Pistlar

Jafnrétti hefur ávallt verið mér afar kært og oft hefur mér misboðið við að horfa upp á hvers konar mismunun af völdum félagslegra eða líffræðilegra eiginleika. Þessi ákafi áhugi minn á jafnrétti var ein ástæða þess að ég ákvað að slást í lið með Röskvu. Jafnrétti er nefnilega einkar víðfemt viðfangsefni, snertir á mjög mörgu innan háskólasamfélagsins og er sérstaklega mikilvægt í ljósi hins sérlega fjölmenna og fjölbreytta hóps einstaklinga sem þrífst innan þess.

Jafnrétti til náms ætti að vera sjálfsagt. Nám ætti að vera á færi allra sem áhuga hafa; ekki einungis þeirra sem hafa efni á því, eiga ekki við fötlun að stríða, eru af ákveðnu þjóðerni, aldri eða þeirra sem búa innan tiltekins svæðis.

Háskóli Íslands er vissulega kominn vel á veg í jafnréttismálum. Jafnréttisnefnd háskólans og Jafnréttisnefnd SHÍ eru virkar í sínum störfum, til dæmis eru jafnréttisdagar orðinn árlegur viðburður innan skólans, auk þess sem Femínistafélag háskólans hefur verið virkjað á ný.  Þrátt fyrir þessa jákvæðu þróun hefur jafnrétti til náms enn ekki verið náð til fulls innan Háskóla Íslands. Því er nú stefnt í enn frekari hættu með sífelldri hækkun skrásetningargjalda. Gjöldin hafa nú verið hækkuð tvisvar á aðeins þremur árum og voru síðast 75.000 krónur. Hækkun þeirra kemur í veg fyrir að hver sem er geti hafið háskólanám án frekari skuldsetningar. Gjöldin eru ekki lánshæf hjá LÍN;  semsagt, ekki er gert ráð fyrir þeim í framfærsluviðmiðum svo stúdentar sem ekki hafa nægt fjármagn á milli handanna neyðast til að leita annað fyrir láni. Mikilvægt er að Stúdentaráð komi í veg fyrir frekari hækkun skrásetningargjalda og vinni á sama tíma markvisst að lækkun þeirra. Þannig stuðlum við að jafnrétti til náms, óháð efnahag. Háskólanám ætti ekki einungis að vera á færi þeirra sem eiga peninga fyrir skrásetningargjöldum, heldur allra.

Annað mikilvægt málefni er snýr að jafnrétti til náms er að auðvelda innflytjendum að sækja sér háskólamenntun hér á landi. Einstaklingar sem flytja til annarra landa þurfa oft tíma til að aðlagast samfélaginu, finna vinnu og öðlast reynslu í nýju landi en þátttaka í háskólasamfélagi getur hjálpað í því ferli. Auk þess gætu þeir með þessu móti kynnst fólki, skapað tengslanet og undirbúið sig betur fyrir vinnumarkaðinn. Þannig mætti að sama skapi draga úr fordómum gagnvart innflytjendum með fleiri málstofum, líkt og haldnar hafa verið innan háskólans, og auknu samstarfi nemenda. Í þessu samhengi er einnig gríðarlega mikilvægt að gæta jafnréttis í námsmati, til dæmis með því að bjóða upp á enskar þýðingar á prófum og öðrum verkefnum. Slíkt hið sama mætti gilda um inntökupróf ýmissa deilda háskólans, en mikil mismunun getur átt sér stað vegna tungumálaörðugleika innflytjenda, ef einungis er boðið upp á slík próf á íslensku. Í raun má telja það í hæsta máta óeðlilegt að ekki sé nú þegar boðið upp á þann möguleika, enda mikið af námsefni þessara sömu deilda aðeins til á ensku og fullkomin íslenskukunnátta ekki skilyrði fyrir náminu.

Einnig er vert að minnast á málefni, sem auðveldari eru í framkvæmd. Þar ber til að mynda að nefna aðgengi. Örlítil vinna tryggir að í öllum byggingum háskólans sé hjólastólaaðgengi, að hurðir opnist svo hreyfihamlaðir geti farið ferða sinna án óþarfa vandræða og setja mætti upp leiðarlínu í þeim geimi sem Háskólatorg er til að auðvelda ferðir blindra um svæðið. Að auki er það lítil vinna að þjálfa kennara í notkun á ýmsum tæknibúnaði svo hægt sé að taka upp fyrirlestra og koma þannig í veg fyrir að búseta hefti námsframboð.

Hugsjónin um jafnrétti til náms, óháð kyni, efnahag, uppruna, búsetu, fötlun, stöðu eða aðstæðum er að öðru leyti mikilvægur hluti af starfi og stefnu Röskvu og hefur jafnan verið sett í forgang í umræðu og stefnumótun. Oft tala Röskvuliðar um hinn svokallaða rauða þráð sem tengir allt og alla saman innan félagsins og er þar ekki að undra.

Háskólanám á ekki að vera forréttindi, sem aðeins ákveðinn hópur fólks innan samfélagsins á kost á að nýta sér. Háskólanám á að vera sjálfsagður hlutur, opið öllum áhugasömum, óháð öllu öðru. Mikilvægt er að opna augu fólks fyrir því óréttlæti sem enn ríkir í háskólasamfélaginu og bæta úr því með öllum mögulegum leiðum.

Eitt mikilvægasta verkefni Stúdentaráðs er einmitt það; að standa vörð um jafnréttið, koma í veg fyrir skerðingu þess og vinna að því að ná upp jafnrétti til náms á öllum vígstöðum.

Með öflugu og framsæknu þrýstiafli líkt og Röskvu í fararbroddi, getum við ýtt á eftir réttri forgangsröðun ríkisfjármála og hraðari framkvæmdum innan Háskólans og þannig komist skrefinu nær hinu fullkomna jafnrétti.

Þessa grein er einnig að finna í kosningablaði Röskvu