Samþætt ábyrgð stúdenta og stofnana

VefstjoriRoskvu Pistlar

Helga Lind Mar, 2. sæti á lista Röskvu til háskólaráðs.

Ég vil komast inn í háskólaráð. Ég trúi að ég hafi bæði reynsluna, þekkinguna og þrjóskuna til að standa með stúdentum, tryggja að hagsmunir þeirra heyrist og berjast fyrir því að Háskóli Íslands uppfylli betur þá samfélagslegu ábyrgð sem ég tel hann eiga að axla.

Frá því að ég hóf afskipti af stúdentapólitík árið 2012 hefur viðhorf mitt snarbreyst. Raddir stúdenta eiga ekki bara að heyrast þegar réttindi þeirra sjálfra eru virt að vettugi, stúdentar geta og eiga að vera öflug samfélagsrödd sem krefjast samfélagsbreytinga. Sem stúdentar erum við stór hluti af samfélaginu og sjónarhorn okkar er ekki bara mikilvægt heldur nauðsynlegt.

Í Röskvu hef ég fundið stóran hóp af fólki sem deilir hugsjón minni um jafnrétti til náms og hversu nauðsynlegt er að berjast fyrir því. Alla daga, á öllum vígvöllum og aldrei gefa afslátt. Á meðan stúdentar spegla ekki þverskurð þjóðarinnar þá höfum við ekki tryggt fyllilega aðgang að menntun. Burt séð frá kyngervi, fjárhagsstöðu, fötlun, uppruna og áfram má telja upp alla þá þætti sem byggja upp þá persónu sem við erum.

Vandamálin sem herja á stúdenta eru svo mikil langavitleysa og hefur mikil dóminóáhrif í gegnum allt sem við gerum. Við fáum ekki nógu há lán til að geta sinnt náminu okkar 100% og því við þurfum að vinna samhliða skóla. Með því að vinna mikið með námi eykst álag og kvíði gagnvart náminu. Ofan á það fá ekki allir stúdentaíbúðir og eru því fastir á leigumarkaði með himinháar leigugreiðslur. Við erum með einn sálfræðing í 50% stöðugildi fyrir u.þ.b. 13.000 stúdenta og fá því fæstir viðeigandi aðstoð. Sökum fjárhags geta svo fæstir stúdentar sótt sér geðheilbrigðisþjónustu á eigin vegum. Svona fer þetta hring eftir hring á meðan stúdentar ná aldrei jafnvægi. Þetta eru samþætt vandamál sem leysast ekki með því að einblína á einn vinkil í einu, heldur verður að fara í heildstæða endurskoðun á núverandi stöðu stúdenta.

Þrátt fyrir að þetta sé staðan þá höfum við það ekki verst. Háskólinn verður að uppfylla þá samfélagslegu ábyrgð sem hann hefur gagnvart nýjum Íslendingum, hælisleitendum og flóttafólki sem hafa minni réttindi og takmarkaðra aðgengi að námi en flestir stúdentar af íslenskum uppruna. Ég tel að fyrsta skrefið í því sé að tryggja leiðir til að meta fyrri menntun einstaklinga, sama hvort þeirri menntun hafi lokið með gráðu eða námi hætt áður en hægt var að ljúka því. Vandinn sem nýir Íslendingar, flóttafólk og hælisleitendur upplifa við komuna til landsins út af þeim bresti í kerfinu við mat á fyrri menntun er margþættur. Einn angi af honum er að samfélagið heldur þessum tiltekna hópi einangruðum með því að takmarka aðgengi þeirra að störfum sem hæfir þeirra menntun. Einstaklingar sem hafa sótt sér menntun í skólum sem eru ekki Bologna „vottaðir“ eða einfaldlega pappírslausir hafa ekki minni þekkingu eða kunnáttu. Menntun snýst um að efla þekkingu og kunnáttu einstaklings sama hvaðan hún kemur. Háskólinn þarf að efla verkfæri sín til að meta þessa þekkingu og vil ég beita mér fyrir því innan háskólaráðs.

Ég er í 2. sæti á framboðslista Röskvu til háskólaráðs og það komast einungis tveir einstaklingar inn. Því þarf Röskva að fá helvíti mörg atkvæði til að ég komist inn sem aðalmaður.

Ég vil því hvetja ykkur öll að fara inn á Ugluna í dag eða á morgun milli kl. 9-18 og kjósa bæði Röskvu til Stúdentaráðs og háskólaráðs, því þar tel ég atkvæði þínu best varið.