Slys og áföll mismuna ekki

VefstjoriRoskvu Pistlar

Theodóra Listalín Þrastardóttir, 2. sæti á Heilbrigðisvísindasviði.

Ég elska að vera ein í bílnum mínum með útvarpið í botni. Ég var á leiðinni heim eftir langan dag og Beyoncé var í útvarpinu. Það var nýfallinn snjór úti og hálka, allt í einu byrjaði bíllinn minn að skrika og ég missti algjörlega stjórn.

Þetta gerðist allt svo hratt, ég man ekki hvaða hraða ég var á, hvort ég hafi fengið höfuðhögg né hvað átti sér stað áður en ég missti stjórn. Bíllin klessti í grindverk en hélt áfram svo að snúast. Ég man bara að ég hugsaði að bíllinn myndi áreiðanlega velta og líkami minn var undirbúin undir það, ég hugsaði ,,þetta verður mjög sárt’’. Bíllinn loks klessti í skafl og stansaði þar. Ég var móð af hræðslu og þurfti að ranka við mér, hvar ég væri stödd og hvað hafði gerst. Ég var heil á húfi. Ég var með fulla meðvitund og enga áverka. Lögreglan kom svo að mér hágrátandi í áfalli og hjálpaði mér að koma bílnum á öruggan stað og mér heim.

Daginn eftir leið mér einstaklega vel, ég var tilbúin fyrir áskoranir dagsins og ætlaði bara að tækla daginn með jákvæðnina að leiðarljósi. En það var ekki raunin þegar í skólann var komið, ég átti í miklum eriðleikum með að halda andliti við kunningja á göngum skólans eins og ekkert hafði í skorist. Ég fann besta vin minn, greip hann með mér afsíðis og gjörsamlega brotnaði niður. Það versta var að ég skildi ekki afhverju mér leið svona illa. Það var gjörsamlega engin logík á bak við það, þetta hefði getað farið mikið verr og ég vissi alveg betur. En alltaf þegar ég stóð upprétt fann ég fyrir sársauka í hnakka mínum og þá endurupplifði ég áreksturinn.

Vinur minn er með mér á þriðja ári í sálfræðinámi og hann taldi að ég væri einfaldlega að upplifa snarpa kvíðaröskun (e. acute stress disorder), en það er vægari og skemmri útgáfa af áfallastreituröskun (e.post traumatic stress disorder).

Þarna var ég, þriðja árs sálfræðinemi og „geðheilbrigðis-peppari’’ að kenna sjálfri mér um að líða svona illa útaf slysinu og vera með samviskubit yfir því, þótt ég væri með rétta menntun og hefði átt að vita betur. Það er svolítið skondið í sjálfu sér, maður les bækur og greinar, lendir í hópumræðum og hlustar á fyrirlestra um þessi einkenni en þegar ég upplifði þau sjálf var ég ekkert betur í stakk búin að takast á við þau heldur en hver önnur manneskja.

Það sem þó geðheilbrigðisfræðsla gerir er að hjálpa manneskjunni að komast fyrr uppúr vanlíðan sinni og því tel ég hana mikilvæga fyrir gott bataferli. Geðkvillar og slys mismuna ekki, þau geta komið fyrir hvern sem er, hvenær sem er. Sama hversu sterkur maður er þá geta áföll haft veruleg áhrif á daglega líðan. Það er ekki sjálfsagt að kunna að bregðast rétt við áföllum í lífinu, þessvegna er geðfræðsla og aðgengileg sálfræðiþjónusta svo gífurlega mikilvæg fyrir hagsmuni stúdenta, oft meira en maður gerir sér grein fyrir á daglegum nótum.