Spurt og svarað

Atli Elfar Helgason Pistlar

Nú standa eflaust flestir nemendur háskólans á öndinni. Spennan hefur fyrir löngu síðan læst sér í fólk og nú nálgast stundin óðfluga. Tryllingslegur spenningur liggur í loftinu því nú fer að líða að kosningum. Auðvelt er að sjá fyrir sér háskóla nemendur sem hafa vart stjórn á kæti sinni er þau lesa þessar línur, grípa blaðið líklega þéttingsfast og reyna að halda aftur af húrra hrópunum (því þau eiga sér víst stað og stund).

Ef þú fyllist ekki slíkri kæti er hugsanlegt, í raun líklegt, að þú vitir einfaldlega ekki nóg um komandi kosningar. Það er sem betur fer lítið mál að að kippa því í lag og með þessari grein er vonin að lesandinn geti tekið virkan þátt í hinum ýmsu umræðum sem fylgt gætu tímamótum sem þessum. Greininni er ætlað að stikla á stóru á þeim helstu spurningum sem vakna ef til vill í huga þess sem ekki hefur kynnt sér kosningarnar áður og veitir vonandi örlitla hugarró þeim sem fyllist ótta yfir takmarkaðri kunnáttu sinni á stúdentapólitík.

Um hvað er kosið? Kosið er til stúdentaráðs. Þeir sem kosnir inn munu sitja í ár bæði í stúdentaráði og sviðsráði síns sviðs.

Hvernig er kosið? Kosningar fara fram í Uglunni og standa yfir í tvo daga. Kosningar valmöguleikinn blasir við nemendum efst á síðunni strax við innskráningu. Hver einstaklingur getur aðeins kosið frambjóðendur á því sviði sem viðkomandi stundar nám á. Nemanda er boðið að velja hreinan lista sem boðinn er fram af fylkingu eða að raða upp sínum eigin lista með samblöndu af því fólki sem ákveðið hefur að gefa kost á sér, óháð fylkingum.

Hvert er hlutverk stúdentaráðs? Stúdentaráð er helsta þrýstiafl nemenda út á við. Hlutverk þeirra sem sitja þar er að gæta hagsmuna stúdenta og er það æðsta afl þeirra og helsta rödd út í samfélagið. Það er hagsmunafélag stúdenta og getur staðið fyrir opinberum skrifum og sett þrýsting á hin ýmsu samtök sem varða hagsmunamál nemenda.

Hvað sitja margir í stúdentaráði? 27 manns sitja í stúdentaráði, alls. Fimm manns af hverju sviði, nema félagsvísindasviði, af því sitja sjö manns. Auk þess sitja þeir einstaklingar sem kosnir eru inn í stúdentaráð í sviðsráði fyrir sitt svið.

Hvað hefur stúdentaráð gert undanfarið til að bæta hag stúdenta? Stúdentaráð hefur unnið marga sigra, suma sýnilegri en aðra. Nýverið ber helst nefna fjölgun stúdentagarða, Stúdentakjallarann og Háskólabúðina, auk þess sem að aukalegur kostnaður nemendafélaga við að sjá til þess að öllum sé fært að mæta á viðburði (t.d. ef notast skal við rútu með hjólastóla aðgengi) er nú niðurgreiddur.

Hvernig get ég nálgast frambjóðendur og meðlimi hreyfinganna til þess að fá svör við spurningum varðandi stefnumál þeirra? Stefnumál koma fram í kosningablöðunum, auk þess sem stúdentaráð hefur ákveðið að gefa út upplýsingabækling þetta árið sem fer yfir starfsemi stúdentaráðs, kosningarnar o.fl. Ef þú hefur frekari spurningar getur þú nálgast frambjóðendur í svokallaðri “kaffisetu” þar sem að boðið er upp á kaffi í öllum byggingum háskólans og frambjóðendur sitja fyrir svörum. Auk þess erum við með kosningamiðstöð, en þangað eru allir velkomnir. Við erum staðsett á þriðju hæð í stóra svarta húsinu á Lækjartorgi og þar verður alltaf eitthvað í boði og viðburðir á kvöldin. Gengið verður í tíma stuttu fyrir kosningar og starf Röskvu kynnt, þar eru allar spurningar velkomnar, og nemendur mega jafnvel eiga von á símtali þar sem að kosningarnar eru kynntar fyrir þeim. Annars vilja allir frambjóðendur svara spurningum þínum hvenær sem þær brenna á þér, svo ekki hika við að nálgast fólk af fyrra bragði. Hér, í blaðinu, má finna myndir og nöfn allra frambjóðenda sem ættu að auðvelda þér umsátrið.

Hvernig er kosningaviku háttað/á hvaða viðburði get ég mætt? Öll dagskrá sem boðið verður upp á í kosningaviku verður birt á facebook viðburði sem settur verður upp með nægum fyrirvara og auglýstur á facebook síðu Röskvu. Þar má eiga von á alls kyns spennandi hlutum, auk þess sem að kosningamiðstöð okkar stendur öllum opin.

Geta nemendur haft áhrif á stúdentaráð án þess að vera meðlimir í því? Stúdentaráðsfundir standa öllum opnir og eru auglýstir á facebook síðu stúdentaráðs. Þó að þeir einstaklingar sem ekki sitja í stúdentaráði hafi ekki atkvæðisrétt er öllum frjálst að tjá sig um hin ýmsu mál sem rædd eru þar og að koma með fyrirspurnir. Auk þess er hægt að hafa samband við þá sem sitja í stúdentaráði beint, til dæmis í gegnum facebook, það er þeirra starf að vera aðgengileg.

Vonandi tókst með þessu að svara öllum helstu spurningum sem gætu brunnið á óreyndum kjósendum. Ekki hika við að leita þér svara við þeim spurningum sem þú fékkst ekki svar við, allir meðlimir okkar vilja ólmir svara þér. Endilega kynntu þér svo málefnin okkar og taktu upplýsta ákvörðun.

Þá er ekkert annað eftir en að njóta kosninganna!

-Alma Ágústsdóttir og Ragnar Auðun Árnason, nýnemafulltrúar Röskvu