Til hamingju stúdentar!

Röskva Pistlar

Árið 2016 undirritaði Háskóli Íslands samning við Reykjavíkurborg um uppbyggingu stúdentaíbúða við Gamla garð. Síðasta haust var útlit fyrir að hætt yrði við uppbyggingu á reitnum þar sem mikil gagnrýni kom fram, utan jafnt sem innan háskólans. Stúdentar áttu að sitja á hakanum, en það er ekki raunin í dag eftir mikla og ötula hagsmunabaráttu Stúdentaráðs.

Ragna Sigurðardóttir, formaður Stúdentaráðs og fulltrúi Röskvu í háskólaráði, fundaði stíft með forystu háskólans, borgaryfirvöldum og Félagsstofnun stúdenta um málið. Ákveðið var að fara sáttaleið og stofna samráðshóp. Ragna beitti sér fyrir því að fulltrúi nemenda myndi eiga sæti í þeim hópi, sem ekki stóð til í upphafi. Hún fékk það í gegn og tryggði því að rödd nemenda myndi heyrast í samráðshópnum.

Starfshópurinn skilaði af sér niðurstöðu í síðasta mánuði og fól hún í sér samkomulag milli Háskóla Íslands og Félagstofnunar stúdenta um uppbyggingu stúdentaíbúða á háskólasvæðinu. Í dag var samkomulagið undirritað. Dagurinn í dag er því mikill hátíðardagur fyrir stúdenta, undirskriftin markar stóran áfanga í hagsmunabaráttu nemenda sem við fögnum ákaflega. Á sama tíma þurfum við að halda baráttunni áfram, þar til íbúðirnar rísa.

Hvað fólst í niðurstöðum samráðshópsins og hvað þýðir það?

  • Byggt verður við Gamla garð.
  • Unnið verður að deiliskipulagi háskólasvæðisins í víðtækri sátt. Sú vinna hefst strax.
  • Ný skipulagsnefnd háskólasvæðisins hefur strax undirbúning að gerð heildarskipulags fyrir háskólasvæðið sem inniheldur uppbyggingu stúdentaíbúða umfram þær 400 íbúðir sem þegar eru áformaðar.
  • Samhliða verða skoðaðir fleiri byggingareitir fyrir stúdentaíbúðir, s.s. við Dunhaga, á svonefndri randbyggð Vísindagarða á Landspítalalóðinni og svonefndum Fluggarðareit austan Njarðargötu.