Tryggjum fjölbreytileika innan tæknigeirans

VefstjoriRoskvu Pistlar

Laufey Þóra Borgþórsdóttir, oddviti Röskvu á Verkfræði- og náttúruvísindasviði.

Jafnrétti og fjölbreytileiki er lykillinn að sterku samfélagi. Háskóli Íslands býður upp á öflugt og fjölbreytt nám í verkfræði og náttúruvísindum og hefur fengið mikið lof fyrir rannsóknir í þessum greinum. En ætli sviðið að halda áfram að vera samkeppnishæft á alþjóðagrundvelli er mikilvægt að:

  • Nýstárlegum kennsluháttum sé gert hátt undir höfði og að kennarar og nemendur nýti sér þá tækni sem er í boði.
  • Taka upp vendikennslu, sem er frábært skref í áttina að skilvirkara námi.
  • Leggja meiri áherslu á hagnýt verkefni sem gætu verið beintengd atvinnulífinu, því þannig má efla hugvit og hæfni nemenda til að takast á við raunverulegar áskoranir.

Í dag eru konur rúmlega 40% af nemendum á Verkfræði- og náttúruvísindasviði. Mikill vannýttur auður er í öllum konunum sem fara eitthvað annað eða hrekjast úr tæknigreinunum. Því tel ég það vera langtímamarkmið að rétta af kynjahlutföll innan sviðsins – og í raunvísindageiranum almennt – því það mun styrkja sviðið. Það verður ekki unnið á einni nóttu heldur er brýn þörf á því að auka sýnileika sterkra kvenfyrirmynda í vísindum til þess að tryggja meiri ásókn ungra kvenna í nám í slíkum greinum. Því verður að gæta þess að fjölbreytileiki sé hafður að leiðarljósi þegar gefið er út kynningarefni og auglýsingar fyrir námið og hvetja ungar konur til dáða.

Tilgangur sviðsráðs er að vera rödd stúdenta í hagsmunabaráttunni. Ég býð fram krafta mína til að tryggja að þessi rödd hljóti hljómgrunn.

Með VoN um róttækt starfsár.