(Tungu)Málalaus Háskóli? – Ákall til stjórnar Háskóla Íslands

Atli Elfar Helgason Pistlar

Háskóli Íslands hefur verið talsvert í fréttum á nýliðnu ári hvað varðar vinsældir ákveðinna fræðigreina, til að mynda lögfræði og hagfræði. Vakin hefur verið athygli á hvernig of hár fjöldi nemenda getur komið niður á gæðum náms og kennslu. Umræðan er brýn en ekki eiga allar deildir við Háskólann við þennan vanda að etja heldur fullkomna andstæðu hans, það er fámenni á ákveðnum námsleiðum. Sú deild sem á líklega helst undir högg að sækja er Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda (DET).

Háskóli Íslands er eina menntastofnun landsins sem býður upp á tungumálanám á háskólastigi. Norðurlandamálin eru kennd, ásamt ensku, frönsku, grísku, ítölsku, japönsku, kínversku, latínu, rússnesku, spænsku og þýsku. Þannig er góð tungumálakunnátta og menningarlæsi ómissandi fyrir samfélagið. Aukin alþjóðasamskipti og vaxandi ferðaþjónusta eru nærtækustu dæmin þar sem þörf er á tungumálafólki, svo ekki sé minnst á mikilvægi þýðinga á öllum sviðum samfélagsins. Að ógleymdu því lykilatriði að það er bæði mikilvægt og brýnt að varðveita þekkingu og kunnáttu í þessum tungumálum hér innan lands.

En hvernig vandamál skapast vegna of fárra nemenda? Er það ekki kostur, þar sem nemendur eru í meiri nánd við kennara, hópurinn verður þéttari en ella og kennarinn hefur meiri tíma fyrir hvern og einn nemanda?

Sú staða hefur æ ofan í æ komið upp innan DET að námskeið hafa verið lögð niður og á mörgum námsleiðum er erfitt að ná gráðu til B.A-prófs (180 ECTS) nema farið sé í skiptinám. Eins og skiptinám getur verið ágætur kostur eiga hins vegar fjöldamargir einstaklingar erfitt að fara til úr landi til að geta lokið grunnámi. Nefna má einstæða foreldra eða barnafjölskyldur sérstaklega, en líka og ekkert síður einhleypa og barnlausa, sem ekki endilega búa yfir fjárráðum til að stunda nám við erlenda skóla.

Helsta ástæða niðurfellingar námskeiða er sú að Háskólinn styðst við þá almennu reglu að ef skráðir nemendur námskeiðs eru færri en fimm er það lagt niður og ef þeir eru á bilinu fimm til tíu er námskeiðinu sér breytt í leskúrs (þá fer kennsla fram í helmingi færri tímum). Háskólinn setur þessar reglur til þess að „útgjöld“ og „tekjur“ við námskeiðið stemmi. Það gefur auga leið að þessi regla gerir ekki ráð fyrir námsleiðum innan DET, sem ná nemendafjölda sjaldan upp í tilætlaða tölu. Fáeinar undantekningar hafa verið gerðar frá hinni almennu reglu Háskólans þegar erlend yfirvöld hafa kostað kennarastöður innan deildarinnar eða einfaldlega að kennarar hafi verið að gefa vinnu sína.

Hugvísindasviðs er í lægsta reikniflokki Háskólans (ásamt Félagsvísindasviði) og gerir það fræðisviðinu erfitt fyrir að standa að verklegri kennslu. Það þarf ekki að kafa djúpt til þess að sjá að verklegir tímar eru grundvallaratriði í tungumálanámi enda erfitt að ímynda sér hvernig hægt er að læra tungumál til gagns fáist ekki þjálfun í að beita því.

Það er vert að nefna að vandamál af þessu tagi eru ekki einskorðuð við DET. Til eru dæmi víðsvegar af Hugvísindasviði þar sem námsbrautir þrífast illa vegna núverandi reglna Háskólans sem taka engan veginn mið af fámennari námsbrautum eða þeim sem byggja á stórum hluta á verknámi. Hægt er að nefna fornleifafræði og íslensku sem annað tungumál í þessu samhengi.

Já, kannski útskrifast „bara” einn úr rússnesku, tveir úr þýsku og þrír úr spænsku á hverju ári. En við viljum búa að slíkum mannauði í samfélaginu og að þessi mikilvæga og ómissandi þekking sé okkur innan seilingar. Þessir aðilar geta fært okkur svo óskaplega margt.

Háskólinn verður að standa vörð um fámennari námsleiðir, fyrir eigið orðspor, fyrir stúdenta og fyrir samfélagið í heild. Það er von okkar að nýr rektor og stjórn Háskólans muni taka á þessu máli.

Gylfi Björn Helgason og Elínborg Harpa Önundardóttir

fulltrúar Röskvu í Stúdentaráði HÍ á Hugvísindasviði.