„Umboðskeðjan” eftir Eyrúnu Fríðu Árnadóttur

Atli Elfar Helgason Pistlar

Ísland er, samkvæmt nýjustu útreikningum, langt á eftir öðrum sambærilegum löndum þegar kemur að fjármögnun menntakerfisins og þá sérstaklega á háskólastigi. Ef litið er til nýjustu útreikninga erum við 36 prósentustigum undir meðaltalinu ef miðað er við OECD löndin. Þegar þessar tölur voru kynntar nú í haust lýsti Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, því yfir að markmiðið sé að jafna þetta umrædda meðaltal.

Þessi yfirlýsing Illuga er vissulega jákvæð í eðli sínu. Hún vekur upp drauma um háskóla án niðurskurðar og námslán sem geta séð stúdentum fyrir raunverulegu lífsviðurværi. Háskóla þar sem lagt er kapp við að hafa námið sem best, fjölbreyttast og jafnframt aðgengilegt fyrir alla óháð stöðu.

Á sama tíma vekur yfirlýsingin upp efasemdir.

Á síðustu misserum hafa verkföll verið boðuð á prófatímabilum og LÍN haldið staðfastlega áfram að hækka sínar framvindukröfur til námslána. Námskeið falla niður, námsleiðir eru takmarkaðar og með því er námsframboðið skert.

Ef tekið er tillit til stefnu yfirvalda í menntamálum á undanförnum misserum má gera ráð fyrir að auknum fjárveitingum verði mætt með auknum takmörkunum.

Nýjasta útspil yfirvalda var að takmarka aðgengi að menntun svo að þeir einstaklingar sem luku ekki framhaldsskóla fyrir 25 ára aldurinn hefðu ekki lengur tækifæri til að gera svo innan opinbera kerfisins. Þetta útilokar tækifæri þeirra til framhaldsmenntunar.

LÍN heldur áfram að hækka sínar námsframvindukröfur og þrátt fyrir að dómsmál Stúdentaráðs gegn ríkinu hafi frestað þeirri hækkun um einhverja mánuði standa námsframvindurkröfurnar nú í 22 einingum.

Í þokkabót hefur núverandi ríkistjórn hækkað matar- og bókaskatt sem er enn önnur aðförin að hagsmunum stúdenta.

Ekki er þó við háskólann að sakast. Háskóli Íslands er boðinn og búinn að bæta menntun landsmanna þrátt fyrir mótlæti, niðurskurð og gagnrýni. Tíðar verkfallsboðanir eru því eingöngu neyðarúrræði fjársveltrar kennarastéttar til að tryggja áframhaldandi eðlileg vinnu og kennsluskilyrði við háskólann.

Kennarar og starfsfólk skólans standa vörð um vinnustað sinn eins vel og þeir geta en ekki má gleyma því að skólinn er vinnustaður okkar líka.

Hlutverk nemenda er því gríðarlega mikilvægt þegar kemur að bættum háskóla. Kennslukannanir eru að sækja í sig veðrið og meirihluti nemenda tekur þannig virkan þátt í að móta starf háskólans þegar kemur að kennslu. Félagssamtök á vegum nemenda sjá um að efla félagslíf og bæta fjölbreytileika í lífi nemenda og hagsmunasamtök vinna að því að brúa bilið á milli nemenda og reglugerða.

Það má þó ekki segja að hlutverki nemenda sé þar með lokið. Við verðum að berjast fyrir því að fá þá menntun sem við eigum skilið, þ.e. þá bestu sem við getum fengið.

Hlutverk Stúdentaráðs er að standa vörð um þau gæði, sem og öll önnur mál sem viðkoma stúdentum. Við eigum að fara fram á að málsvarar okkar séu í sífellu að reyna að bæta okkar hlut. Stúdentaráð á ekki að vera hópur fólks sem er virkjaður þegar neyðarástand skellur á. Stúdentaráð á öllu heldur, í öflugu samstarfi við nemendur skólans, að vera í sífelldri sókn.

Það verður að standa vörð um hina ýmsu hagsmuni nemenda, svo sem að passa að einkunnum sé skilað á réttum tíma, að LÍN standi skil á sínu gagnvart nemendum og allt þar á milli. Ekkert hagsmunamál ætti að vera of lítið né heldur of ómerkilegt, til að fá viðeigandi meðferð.

Án nemenda er menntakerfið bókstaflega ekki til. Nemendur eiga ekki einungis að taka passívan þátt í því, því ef tryggja á framtíð þess verða þeir að sjá hag sinn í því að berjast fyrir betra menntakerfi. Berjast fyrir kerfi sem mismunar ekki né refsar fyrir metnað og fórnfýsi, eða hlustar ekki á nemendur sína.

Við í Röskvu förum ekki fram á að hver einn og einasti nemandi geri baráttuna að sínu persónulega verkefni. Það eina sem við biðjum um er umboð til að gera það fyrir ykkur.

Þessi grein birtist einnig í kosningablaði Röskvu