Umhverfis fasistinn

Atli Elfar Helgason Pistlar

„Is it too late now to say sorry umhverfi?“

Spyr ég sjálfa mig þegar ég hugsa til framtíðar umhverfismála við Háskóla Íslands. Með hækkandi Röskvusól á himni hef ég fulla trú á því að við verðum leiðandi í þessum málum.

Háskóli Íslands er stærsta menntastofnun landsins og innan veggja hans finnst fólk sem er leiðandi á sínu fræðasviði í alþjóðasamfélaginu. Umhverfisstefna skólans er í dag heldur óljós og sama á við þegar horft er til Stúdentaráðs. Undanfarið hefur þó margt gott gerst sem gaman er að segja frá. Endurvinnslukerfið er til dæmis að fara í gegnum breytingar til hins betra (bíðið spennt) til að auðvelda nemendum flokkunina! Einnig erum við með umhverfisstarfsmann Háskóla Íslands og þó staðan sé aðeins 15% er það klárlega skref í rétta átt. Jón Atli rektor hefur einnig skrifað undir samning þess efnis að minnka úrgang og losun gróðurhúsalofttegunda frá Háskólanum (takk Jón!).

Í aragrúa hagsmunamála og kosningaloforða hafa umræður um umhverfismál sjaldnast verið háværar. Það er kannski vegna þess að málaflokkurinn tengist okkur stúdentum oftast óbeint. Svo óbeint að það er ótrúlega auðvelt að sleppa því að hugsa um umhverfið og afsprengi neysluhyggjunnar. Því auðvitað er meira næs að halda sínu striki og ekki hugsa of mikið út í þetta. Það er engin lygi að breytingin úr óábyrga neytandanum í umhverfisfasistann getur verið drulluerfið. Hver nennir að spá í heildarmyndinni af þeim 8.500 kaffibollum sem notaðir eru í Hámu á einni viku þegar sá hinn sami er að njóta sakleysislega kaffibollans síns í morgunsárið? Við viljum flestöll geta notað það sem við viljum, þegar við viljum í stað þess að hugsa út í öll smáatriði í okkar neyslumynstri. Það er þó ótrúlega mikilvægt að þessi hugsun breytist. Við þurfum að stíga upp og taka ábyrgð á okkar umhverfi. Röskva gerir þá kröfu til Stúdentaráðs og Háskólans í heild sinni að við tökum okkur saman í andlitinu og öxlum ábyrgð. Þá fyrst verðum við það leiðandi afl sem við ættum að vera í umhverfisbaráttu í íslensku samfélagi.

– Sunna Mjöll Sverrisdóttir, nemi í Umhverfis-og byggingarverkfræði, meðlimur í Umhverfis-og sjálfbærninefnd HÍ og stofnandi Umhverfis-og samgöngunefndar SHÍ