„Vilt þú sjá breytingar?” eftir Rögnu Sigurðardóttur, formann Röskvu

Atli Elfar Helgason Pistlar

Nú nálgast kosningar. Þú hefur kannski spurt þig, „til hvers í andskotanum ætti ég að hafa áhuga á stúdentapólitík?“

Þetta er gild spurning. Sama hvern þú spyrð innan stúdentapólitíkurinnar, sama úr hvaða fylkingu, þá stendur ekki á svari. Svarið hefst oft á svipaðan hátt – en endar ekki alltaf eins.

Stúdentaráð er tækifæri til þess að hafa áhrif.

Við – nemendur – erum þrýstihópur. Við getum og eigum að mótmæla aðförum að okkar hagsmunum.

Við erum heppin að búa í samfélagi þar sem það er mögulegt. Það er eins gott að við nýtum það tækifæri til fulls. Að nýta það tækifæri til fulls þýðir að vekja athygli á kjörum okkar nemenda. Virðisaukaskattur í neðsta þrepi hækkaði úr 7% í 11% á þessu ári. Matur, bækur, dagblöð, tímarit, geisladiskar, hiti og rafmagn falla undir þessa hækkun. Árleg útgjöld til matvælakaupa hækka með þessu um tugi þúsunda króna árlega. Bókakostnaður eykst. Á meðan er þrengt að Lánasjóði íslenskra námsmanna.

„Endurgreiðsla námslána er allnokkuð íþyngjandi fyrir ungt fólk“ stendur í stefnu Vísinda- og tækniráðs, „en jafnframt er rekstur LÍN íþyngjandi fyrir íslenska ríkið.“ Vísinda- og tækniráð, sem samanstendur af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar, hefur það að stefnu að lækka framlög til LÍN. Það kemur okkur við. Aðfarir að kjörum okkar koma okkur við – og það er hlutverk Stúdentaráðs að vera í forsvari fyrir okkur þegar vegið er að þessum kjörum.

Samfélagslegar breytingar hafa áhrif á okkur – og öfugt.

Stefna Vísinda-og tækniráðs, eða öllu heldur skortur á framylgd þeirrar stefnu, hefur áhrif á okkur. Skortur á fjármagni sem veitt er til menntakerfisins, rannsókna og kennslu, hefur áhrif bæði á gæði náms okkar og á framtíðarkjör okkar. Undirfjámögnun heilbrigðiskerfisins hefur bein áhrif á nemendur, bæði þá sem stúdera og starfa á því sviði.

Stjórnvöld hafa þrengt að þeim sem stunda nám við Háskóla Íslands. Hér er hins vegar tækifæri til þess að hafa áhrif. Okkar eigin hagsmunabarátta kemur okkur auðvitað við.

Það sem gerir okkur kleift að stunda nám og sinna starfi okkar af fullum krafti kemur okkur við!

Við höfum tjáð okkur um þetta markvissa niðurrif á kjörum okkar á árinu. Það þarf samt meira til. Það þarf öfluga hagsmunagæslu, öflugt Stúdentaráð í forsvari fyrir alla nemendur. Það gerist með Röskvu í meirihluta.

Það er kominn tími á jákvæðar breytingar. Það er kominn tími á öfluga hagsmunagæslu sem eflir raddir nemenda bæði innan og utan Háskóla Íslands.

Látum til okkar taka.

Þessa grein er einnig að finna í kosningablaði Röskvu