„Vilt’ekki vera með?” eftir Ólaf Björn Tómasson

Atli Elfar Helgason Pistlar

Kæri þú,

Nú nálgast kosningar óðfluga og þú hefur örugglega tekið eftir auknum sýnileika þeirra fylkinga sem sækjast eftir umboði þínu til Stúdentaráðs.

Alls staðar að kemur þetta fólk með kaffiborðin sín, brosandi út í eitt með barmmerki á sparifötunum og bæklinga við hönd. Spurningin er þó hverju frambjóðendur hyggjast betrumbæta  við Háskóla Íslands eftir að einhverjir þeirra taka við stöðu innan Stúdentaráðs.

Sjálfur er ég fullur tilhlökkunar fyrir komandi kosningum til Stúdentaráðs; þetta eru tímamót sem marka þá leið sem við, nemendur Háskóla Íslands, viljum halda í átt að. Við viljum að þessar kosningar hafi víðtækari afleiðingar en ella.

Hlutverk Stúdentaráðs er að vera í forsvari fyrir þá 15 þúsund einstaklinga sem háskólasamfélagið samanstendur af og berjast fyrir bættu námsumhverfi.

Innan háskólans verður að huga að hlutum eins og viðeigandi vinnuálagi í samhengi við einingafjölda, tryggja verður gæði kennslustunda og sjá til þess að rödd nemenda reynist mótandi afl í stefnumálum skólans.

Vissulega megum við ekki gleyma þeim hlutum sem bæta þessar tíu mínútur á milli tíma eins og að hafa kaffi til staðar í öllum byggingum eða ásættanlegri prentaðstöðu í verkefnaviku.

Hagsmunabarátta nemenda er þó ekki aðeins háð innan Háskóla Íslands og sem heild getum við reynst öflugt þrýstiafl fyrir bættum kjörum nemenda.

Á seinustu árum hefur Háskóli Íslands þurft að mæta óbilgjörnum niðurskurði og ljóst er að það fjármagn sem skólinn hefur til að vinna með er ekki nógu mikið til að hann virki eins vel og hann á að gera.

Enn frekar hefur verið vegið að [veski?] nemenda með hærri skattlagningu á matvörur og bækur og er það mér spurn hvað myndi gerast ef 15 þúsund manns myndu krefjast betri kjara. Öflugt Stúdentaráð hefur fjöldann á bak við sig og hvert atkvæði sem er greitt veitir heildarrödd stúdenta hærri hljóm.

Það er setning uppi á vegg í Stúdentakjallaranum sem mér verður hugsað til annað slagið: „Saman getum við gert svo margt”

Ég átta mig á klisjukeiminum sem fylgir tilvitnun eftir Hellen Keller í svona grein, en það er engu síður kórrétt; krafturinn liggur í fjöldanum.

Raunin er sú að þátttaka minnar eigin kynslóðar í kosningum almennt er ekki nógu góð, t.a.m. kusu minna en helmingur (sirka 40%) í seinustu kosningum til Stúdentaráðs.

Í ferli sem tekur minni tíma en að lesa þessa grein ákvað meirihluti nemenda að nýta sér ekki kosningaréttinn.

Ef til vill er þetta sökum ríkjandi viðhorfi til kosninga almennt eða að hinn almenni nemandi telji sig ekki vita nógu mikið um málefni stúdenta til að geta tekið afstöðu.

Hvernig sem á veginn er litið skipta þessar kosningar máli fyrir hag nemenda og samfélagið gjörvallt. Viljum við búa í landi þar sem nemendur þurfa sífellt að klóra í bakkann á meðan skólagöngu stendur og mæta síðan takmörkuðum tækifærum á vinnumarkaði eftir útskrift?

Við eigum ekki að þurfa að líða fyrir slæma forgangsröðun núverandi ríkisstjórnar í menntamálum. Það liggur í augum uppi að til þess að byggja trausta hagsmunabaráttu stúdenta þarf sem flestar raddir. Raddir sem sporna gegn þeirri þróun sem hefur átt sér stað á seinustu misserum.

Í megindráttum er stefna Röskvu að berjast fyrir jafnrétti allra til náms, snúa við þeirri þróun sem hefur átt sér stað í fjárframlagi ríkisins til Háskóla Íslands og bæta hag nemenda innan sem og utan kennslustunda.

Ég hvet þig þó eindregið til að kynna þér stefnuskrá okkar nánar, taka upplýsta ákvörðun á Uglunni þegar þar að kemur og vera mótandi afl í kjarabaráttu okkar allra.

Áfram þú!

Áfram nemendur!

Áfram Röskva!

Þessi grein birtist einnig í kosningablaði Röskvu