Where are Ü now, nýr spítali?

Atli Elfar Helgason Pistlar

Í umræðunni um heilbrigðiskerfið undanfarið hefur bygging nýs spítala oft borið á góma. Staðsetning nýs spítala hefur verið rædd með tilliti til kostnaðar, aukins umferðarþunga, nýtingar gamalla bygginga og kostnaðar við óbreytt ástand. Það sem hefur hins vegar lítið verið rætt er mikilvægi tengsla Landspítalans við nemendur í Háskóla Íslands.

Samkvæmt niðurstöðum könnunar Sviðsráðs Heilbrigðisvísindasviðs Stúdentaráðs Háskóla Íslands sem gerð var á klínísku námi við Landspítala – Háskólasjúkrahús í haust voru aðeins 22% nemenda sammála því að aðstaða til verknáms væri við hæfi. Með aðstöðu er átt við alls kyns aðstöðu á spítalanum, allt frá búningsklefum nemenda til rýmis fyrir lyfjagjafir eða viðtöl við sjúklinga.

Ófullnægjandi aðstaða er ekki aðeins vandamál í verknáminu því vandamálið teygir anga sína víðar. Sem dæmi má nefna að á fyrstu hæð og í kjallara Eirbergs, aðseturs Hjúkrunarfræðideildar, greinist myglusveppur. Starfsmenn Hjúkrunarfræðideildar eru sumir með einkenni sem talin eru tengjast myglusvepp og hafa kennarar flutt kennslu sína úr Eirbergi í annað húsnæði vegna þess. Einnig má nefna að þungmálmar mælast í kranavatni í þeim hluta Læknagarðs þar sem lagnir hafa ekki verið endurnýjaðar. Hluti Læknagarðs er auk þess enn óbyggður þar sem áform um stækkun húsnæðisins voru stöðvuð.

Af öllum byggingum Háskóla Íslands er lengst síðan byggt hefur verið fyrir Heilbrigðisvísindasvið. Kennsla á Heilbrigðisvísindasviði fer fram í fjölmörgum byggingum en kjarnastarfsemi sviðsins fer fram í átta byggingum sem dreifðar eru um höfuðborgarsvæðið. Þessi dreifing er talin hækka rekstrarkostnað og kemur það niður á deildum sviðsins. Fjórar af sex deildum sviðsins eru reknar með tapi vegna vanfjármögnunar og nemendur finna fyrir afleiðingum þess daglega.

Ein afleiðinganna er að nám einkennist af töluverðu flakki milli bygginga og á það sérstaklega við um þá nemendur sem stunda nám við smærri deildir. Á milli kennslustunda ferðast nemendur til að mynda frá miðbæ í Grafarholt. Þurfa þeir að gera það á 10 mínútum og er þannig óbeint gert ráð fyrir því að háskólanemar séu á bíl. Sú óbeina krafa er í senn óraunhæf, óumhverfisvæn og kostnaðarsöm. Nemendur smærri deilda sviðsins eiga sér þar að auki engan samastað. Það kemur niður á félagslífi þeirra og fækkar þar að auki tækifærum til samvinnu milli deilda, þverfaglegra rannsókna, nýsköpunar og teymisvinnu.

Nemendur við Heilbrigðisvísindasvið búa við bráðan vanda hvað aðstöðu varðar. Ljóst er að byggja þarf nýjan spítala en sá spítali verður að innihalda aðstöðu fyrir nemendur. Endurreisn heilbrigðiskerfisins fæst ekki án fullnægjandi aðstöðu fyrir framtíðarstarfsmenn þess.

-Ragna Sigurðardóttir, Elísabet Brynjarsdóttir og Elín Björnsdóttir, sæti 1-3 á lista Röskvu til Sviðsráðs Heilbirgðisvísindasviðs SHÍ