Framtíð Háskólasvæðisins

Framtíð háskólasvæðisins

Röskva vill að háskólasvæðið þróist í átt að sjálfbærari heild á næstu árum og með það að leiðarljósi þarf að tryggja að íbúar svæðisins geti nálgast alla grunnþjónustu í nærumhverfi sínu. Þá er mikilvægt að samgöngur við og inni á háskólasvæðinu séu bættar. 

ÞRÓUN SAMFÉLAGS Á HÁSKÓLASVÆÐINU
Röskva telur að framtíð Háskólasvæðisins eigi að vera í átt að “Campus” stemningu eins og í helstu háskólum erlendis. Framtíðarsýn Röskvu er sjálfbært háskólasamfélag þar sem stúdentar geta nálgast helstu grunnþjónustu í sínu nærumhverfi.

LÁGVÖRUVERÐSVERSLUN Á HÁSKÓLASVÆÐINU
Röskva telur hagsmunamál fyrir þá nemendur sem búa á háskólasvæðinu, sem og starfsfólk og aðra stúdenta, að aðgengileg lágvöruverðsverslun sé á háskólasvæðinu.

AÐGENGILEG HEILSU- OG LÍKAMSRÆKTARSTÖÐ
Röskva fagnar komu nýrrar líkamsræktarstöðvar í Grósku, eina af nýju byggingum háskólans í Vatnsmýrinni en með komu hennar verður loksins aðgengileg líkamsrækt á háskólasvæðinu. Barátta Röskvu fyrir aðgengilegri Háskólarækt er þó ekki lokið.

STÚDENTAHEILSUGÆSLA
Gífurlega mikilvægt er að tryggja nemendum, sérstaklega þeim sem koma erlendis frá eða utan af landi, aðgang að heildrænni heilbrigðisþjónustu í þeirra nærumhverfi. Röskva mun berjast fyrr því að sérstök heilbrigðismóttaka fyrir stúdenta verði opnuð.

ÞÁTTTÖKULÝÐRÆÐI STÚDENTA
Röskva vill halda áfram að stuðla að auknu þátttökulýðræði stúdenta með verkefnum á borð við Háskólinn Okkar, sem var framkvæmt í fyrsta sinn árið 2018, þar sem hagsmunabarátta stúdenta var gerð aðgengilegri fyrir alla stúdenta.

GRÆN SVÆÐI
Röskva vill að þau grænu svæði sem eru til staðar séu betur skipulögð og verði aðlaðandi fyrir fólk til að nýta sér. Þá vill Röskva að fleiri tré séu gróðursett á háskólasvæðinu til þess að stuðla að aukinni kolefnisjöfnun og fegrun svæðisins.

SNOOZE HERBERGI/HUGLEIÐSLUHERBERGI
Líkt og tíðkast á mörgum framúrstefnulegum vinnustöðum telur Röskva að Háskóli Íslands ætti að tileinka sér heilsusamlega aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk með því að setja upp hugleiðsluherbergi

LITRÍKT HÁSKÓLASVÆÐI
Röskva vill að Háskólasvæðið verði bjart og litríkt. Sem dæmi mættu vera regnbogar á gangstéttum, líkt og hefur tíðkast á Seyðisfirði allan ársins hring og í Reykjavíkurborg.. Nú þegar hefur verið málaður regnbogaveggur í Stakkahlíð og vill Röskva að Háskólinn allur taki Menntavísindasvið sér til fyrirmyndar.