Hinseginmál

RÖSKVA VINNUR AÐ MÁLEFNUM HINSEGIN FÓLKS (LGBTQIA+)
Röskva telur brýnt að hætta að ganga út frá tvískiptu kynjakerfi og sís-gagnkynhneigðarhyggju. Mikilvægt er að auka samstarf Háskóla Íslands við baráttusamtök hinsegin fólks, þá sérstaklega Q-félags hinsegin stúdenta. Þessi vinna er afar mikilvæg þar sem menntun sem litast af tvískiptu kynjakerfi viðheldur staðalímyndum, mismunun, öráreiti og fordómum.

RÖSKVA VILL KYNLAUS KLÓSETT
Áfram þarf að berjast fyrir kynlausum klósettum. Öll eiga að upplifa öryggi í háskólanum og líða vel. Að geta farið á klósettið í skólanum er mikilvægur þáttur í því.

FJÖLBREYTTARI KYNSKRÁNING
Hlutlaus kynskráning hefur nú loksins verið fest í lög og því á Háskóli Íslands að leyfa hlutlausa kynskráningu. 

KYNLAUST MÁLFAR OG BÆTT HINSEGIN ORÐRÆÐA
Háskólinn, starfsfólk hans og nemendur eiga virða persónufornöfn einstaklinga. Notkun persónufornafna sem falla ekki undir kynjatvíhyggjuna, t.d. hán og þau, þurfa að komast í daglega notkun og allt sem háskólinn gefur frá sér ætti að gera ráð fyrir kynlausu málfari. Einnig þarf að koma á þeirri hefð að ávarpa hópa á kynlausan hátt, frekar en í karlkyni, sem dæmi: „öll eru velkomin“ í staðinn fyrir „allir eru velkomnir“. 

VALDEFLING HINSEGIN HAGSMUNAFÉLAGA INNAN HÁSKÓLASAMFÉLAGSINS
Röskva vill að háskólasamfélagið beri hinsegin málefni undir hinsegin félög, t.a.m. Q-félagið. Röskva vill hvetja til þess að sú fræðsla sem Q-félagið sér um sé greidd af þeim sem hana panta. Röskva vill því einnig hvetja Háskóla Íslands til að setja á fót fræðslusjóð sem greitt verður úr fyrir hverja framkvæmda fræðslu.

RÖSKVA VILL AÐ HAGSMUNAFULLTRÚI SHÍ GETI TEKIÐ Á MÁLUM SEM VARÐA HINSEGIN STÚDENTA
Röskva vill tryggja að ef upp komi vandamál sem varða hinsegin stúdenta, hafi hagasmunafulltrúi SHÍ þá nauðsynlegu þekkingu á málefnum hinsegin fólks að hann sé í í stakk búinn til að taka rétt og vel á málunum.

SÝNILEIKI HINSEGIN FÓLKS
Röskva vill auka sýnileika hinsegin stúdenta með því að gera ráð fyrir þeim meðal starfsfólks, í námsefni, verkefnum og auglýsingum fyrir háskólann. Auk þess vill Röskva gæta þess að hinsegin fólk sé sýnilegt í störfum Stúdentaráðs og Röskvu.

HINSEGINFRÆÐSLA
Röskva vill að allt starfsfólk og nemendur Háskóla Íslands fái góðar upplýsingar um hinsegin samfélagið og ætti slík fræðsla  að vera hluti af endurmenntun kennara skólans og ætti hún að vera skylda. Hinseginfræðslu er auðvelt að nálgast þar sem bæði Q-félag hinsegin stúdenta og Samtökin ‘78 sem hafa sinnt slíku starfi, ennfremur er hægt að leita til starfsfólks sem hefur þekkingu á hinsegin málum.

UPPFÆRT NÁMSEFNI
Röskva vill að námsefni sem kveður á um úreltar staðalímyndir, orðræðu  og upplýsingar um hinsegin fólk hverfi úr kennslu. Skoða þarf námsefni vel og gæta þess að sagt sé vel og rétt frá málefnum sem tengjast hinsegin fólki í kennsluefninu.

RANNSÓKNIR Á HINSEGIN MÁLEFNUM
Röskva vill hvetja til frekari rannsókna sem snúa að hinsegin einstaklingum og þeirra upplifun, í samráði við hinsegin samfélag Íslands. Röskva vill einnig sjá fleiri áfanga sem fjalla sérstaklega um hinsegin málefni þar sem gætt er að samtvinnun mismunabreyta.

KYNLAUSIR KLEFAR
Mikilvægt er að aðstaða háskólasvæðisins sé aðgengileg fyrir öll óháð kynvitund, þannig að auk kynlausra klósetta séu til staðar kynlausir klefar í háskólaræktinni sem og í nýrri rækt.