Málefni fjarnema

Málefni fjarnema

Aðgangur að fjarnámi er jafnréttismál fyrir nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu eða búsetu sjá sér ekki fært að stunda staðnám við Háskóla Íslands og bera stúdentar hag af þeim möguleika að geta stundað fjarnám. Bæta þarf aðstöðu fjarnema til muna og tryggja að þeir þurfi ekki að leggja út háar fjárhæðir til að geta mætt í staðlotur. 

AUKIÐ FRAMBOÐ FJARNÁMS
Aðgangur að fjarnámi er jafnréttismál fyrir þá nemendur sem sökum heilsu, fjárhagsstöðu, búsetu eða annarra þátta sjá sér ekki fært að stunda staðnám. Ýmis tækni er nú þegar til staðar og mun Röskva halda áfram að berjast fyrir því að hún sé notuð í auknum mæli til að efla fjarnám með upptöku fyrirlestra og þess námsefnis sem er til prófs. Röskva  vill að framboð fjarnáms sé aukið.

HAGSMUNAGÆSLA FYRIR FJARNEMA:
Árið 2020 voru kosningar til Stúdentaráðs færðar svo þær færu fram í staðlotu fjarnema  og er það hluti þess að efla þátttöku þeirra í kosningum. Röskva vill að Stúdentaráð haldi áfram að kynna hagsmunagæslu sína fyrir fjarnemum og leiti frekari leiða til að efla þátttöku þeirra í hagsmunabaráttu stúdenta.

ÞAÐ ER DÝRT AÐ VERA FJARNEMI
Fjarnemar sem búa utan höfuðborgarsvæðisins þurfa að leggja til töluverðar fjárhæðir til þess að taka þátt í staðlotum. Röskva vill að komið sé betur til móts við þá. Tryggja þarf fjarnemum ódýra gistingu á höfuðborgarsvæðinu og hagstæð ferðagjöld, t.d. í gegnum gistiheimili, rútufyrirtæki og flugfélög.

BÆTUM AÐSTÖÐU FJARNEMA
Röskva krefst þess að staðlotur verði bættar og betur sé staðið að aðstöðu fjarnema en hún hefur verið harðlega gagnrýnd. Röskva krefst þess að unnið verði að úrbótum til þess að bæta staðlotur og gera þær hentugri fyrir fjarnema og í takt við þeirra vilja.