Umhverfis- og samgöngumál

- Umhverfismál - 

Röskva telur að Háskóli Íslands sem æðsta, opinbera menntastofnun landsins, eigi að vera í fararbroddi á öllum sviðum umhverfismála. Við fögnum því að HÍ sé kominn í hóp skóla á Íslandi sem geta flaggað Grænfánanum, en sá áfangi náðist í byrjun mars 2020 eftir ötula vinnu Umhverfis- og samgöngunefndar SHÍ með Röskvu í fararbroddi.

KOLEFNISFÓTSPOR HÍ
Röskva telur rétt að hugað sé að því að Háskóli Íslands skilur eftir sig stórt kolefnisfótspor vegna einkabílsins sem og flugferða á fundi erlendis. Röskva vill að fjarfundabúnaður sé notaður í auknum mæli í stað flugferða og að stefna eigi að því að minnka kolefnisfótspor HÍ verulega. Að auki ætti að kolefnisjafna þær ferðir sem farið er á vegum HÍ.

GRÆNIR STÚDENTAGARÐAR
Röskva álítur að vistvænir stúdentagarðar séu raunhæf framtíðarsýn og vill að Stúdentagarðarnir séu fyrirmynd annarra heimila hvað varðar endurvinnslu, vistvænar samgöngur og aðra sjálfbæra lifnaðarhætti. Röskva vill að Garðarnir hafi fleiri endurvinnslukosti og má þar helst nefna flokkun á lífrænum úrgangi, gleri og áli.

EFLUM ENDURVINNSLU
Röskva fagnar áherslu Háskóla Íslands á endurvinnslu og vill sjá enn frekari eftirfylgni og þróun á því sviði. Fækka mætti tunnum fyrir almennt rusl og fjölga skilastöðvum fyrir margnota matar- og drykkjaráhöld. Einnig ætti að vera staður fyrir tóma flatbökukassa í öllum byggingum háskólans. Þar að auki ætti fræðsla um flokkunarkerfið að vera áhersluatriði t.d. myndrænt og í nýnemakynningum allra deilda. Mikilvægt er að fá Þjóðarbókhlöðuna og Háskólabíó meira í takt við umhverfisviðmið Háskóla Íslands. Bæta þarf aðgengi að endurvinnslu, merkja lok með áferð fyrir blinda og lækka tunnur fyrir hreyfihamlaða.

HÁSKÓLI Í RUSLI
Röskva vill að að teknar verði saman tölur um hversu mörg tonn af rusli fara frá HÍ á ári og þær tölur séu gerðar opinberar. Þá telur Röskva áhyggjuefni að flokkun í Háskóla Íslands fari versnandi og þarf HÍ að taka á þeim vanda. Jafnframt vill Röskva að almennum ruslatunnum verði fækkað umtalsvert, einnig inni á skrifstofum og fundarherbergjum.

GRÆNN HÁSKÓLI
Röskva vill að HÍ sé í fararbroddi á öllum sviðum umhverfismála. Mikilvægt er að auka rafræn skil verkefna og auka notkun rafrænna námsgagna. Þá telur Röskva einnig nauðsynlegt að starfshlutfall verkefnastjóra sjálfbærni- og umhverfismála innan HÍ verði hækkað í 100% og aukin áhersla verði lögð á málaflokkinn með ráðningu fleira starfsfólks.

GRÆNFÁNINN
Stór áfangi náðist nú í vor þegar háskólinn flaggaði Grænfánanum í fyrsta skiptið, 44. háskólinn í heiminum til að ná þeim áfanga. Mikilvægt er að sú vinna sem hefur verið unnin glatist ekki og að Háskóli Íslands haldi áfram að veita fjármagni til Grænfánaverkefnisins auk starfsmanns í umhverfisnefnd Grænfánans. Grænfánaverkefnið er samstarfsverkefni stúdenta og starfsfólks HÍ og er nauðsynlegt að stjórnsýsla skólans leggi sitt að mörkum til að halda þeirri frábæru vinnu sem hefur átt sér stað áfram.

 
- GRÆN HÁMA -

PLASTLAUS HÁSKÓLI
Röskva vill útrýma notkun einnota hnífapara og annarra óþarfa plastumbúða. Háskóli Íslands ætti að stefna að plastlausum Háskóla og stefna að því að hætta notkun á einnota leirtaui. Til að auka notkun fjölnota mála mætti koma upp hreinsunarstöðum til að hreinsa fjölnota málin eftir notkun og gera fjölnota hnífapör aðgengilegri og meira áberandi í öllum byggingum.

MAÍS UMBÚÐIR
Röskva telur að til þess að minnka plast megi HÍ og FS líta til maíspoka og umbúða í meiri mæli. Nota ætti maíspoka og umbúðir sem uppfylla umhverfiskröfur.

FJÖLNOTA UMBÚÐIR
Félagsstofnun Stúdenta mætti hvetja enn frekar til þess að stúdentar komi með eigin nestisbox undir hádegismat úr Hámu. Eins þarf að koma upp stöðum þar sem nemendur og starfsfólk geta þvegið sín eigin fjölnota mál og nestisbox til að hvetja enn frekar til notkunar á þeim.

LITAMERKTAR UMBÚÐIR
Röskva leggur til að einnota umbúðir frá Hámu yrðu litakóðaðar eftir því í hvaða flokkunartunnu þær eiga að fara. Þetta yrði skref í því að vekja athygli á flokkunarkerfinu og auðvelda viðskiptavinum Hámu að flokka rétt.

MEIRA VEGAN
Röskva fagnar þeirri miklu framþróun sem hefur orðið á úrvali á vegan fæði í verslunum Hámu á starfsárinu, en áfram þarf að bæta úrval í minni útibúum Hámu og í sjálfsölum á háskólasvæðinu. Meðfram auknu úrvali á vegan fæði ætti að minnka úrval og framleiðslu á fæði sem hefur hátt kolefnisfótspor, m.a. rauðu kjöti.

MINNKUM MATARSÓUN
Röskva vill minnka matarsóun eins og hægt er, t.d. með því að Háma veiti afslætti á vörum sem eru á síðasta söludegi í auknum mæli í auknum mæli. Varðandi vörur sem eru merktar best fyrir mætti selja þær áfram eftir þann dag á afslætti. Einnig ætti eldhús Hámu að minnka matarsóun eftir fremsta megni og nýta allar afurðir sem best. Einnig ætti eldhús Hámu að minnka matarsóun eftir fremsta megni og nýta allar afurðir sem best.

KOLEFNISMÆLING RÉTTA DAGSINS HJÁ HÁMU
Röskva leggur til að Háma mæli kolefnisfótspor rétta dagsins og gefi það upp. Þá gefst viðskiptavinum Hámu tækifæri til þess að bera saman kolefnisfótspor kjötréttarins við vegan réttinn

 

- Loftslags- og samgöngumál -

Háskólinn á að vera leiðandi í baráttunni gegn loftslagsvánni og hvetja til umhverfisverndar og umhverfisvænni lifnaðarhátta. Röskva krefst þess að Háskóli Íslands leiti allra leiða til að minnka bílaumferð til og frá háskólasvæðinu, þar sem að áætluð aukning á umferð um Hringbraut mun hafa í för með sér mikla skerðingu á lífsgæðum stúdenta, bæði hvað varðar heilsu þeirra og aðgengi að háskólanum. Fellur hér undir að bæta þjónustu í nærumhverfi háskólans og stúdentagarðanna, fækka ferðum á einkabíl með því að ýta undir notkun almenningssamgangna, hjólreiða og tveggja jafnfljótra, auka notkun á fjarfundabúnaði og fleira.

U-PASS SAMGÖNGUKORT
U-passi að erlendri fyrirmynd hefur verið í stefnu Röskvu síðustu tvö ár. Röskva fagnar því áformum háskólans um að bjóða öllum stúdentum samgöngukort á 5.000 kr og mun halda áfram að berjast fyrir því að stúdentar hafi aðgang að fjölbreyttum almenningssamgöngum í gegnum kortið, t.d. næturstrætó, deilibílaleigu og afslætti hjá hjóla- og hlaupahjólaleigum.

LANDSBYGGÐARSTRÆTÓ
Röskva vill að öllum stúdentum HÍ sé gert kleift að nýta sér almenningssamgöngur óháð búsetu. Tryggja þarf að nemendum sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, t.d. á Suðurnesjum, Selfossi og Akranesi afslátt í landsbyggðarstrætó samhliða U-passa svo að almenningssamgöngur geti verið raunverulegur kostur fyrir þennan hóp nemenda.

SKIPTAKORT Í STRÆTÓ Á LÁGU VERÐI FYRIR STÚDENTA
Röskva vill halda áfram að þrýsta á sveitarfélög og Strætó BS að setja af stað skiptakort fyrir stúdenta. Skiptakortið yrði þá á lægra verði en stakir miðar og myndi henta þeim stúdentum betur sem nota strætó af og til.

BÆTT LEIÐARKERFI
Röskva vill strætókerfi sem stúdentar geta nýtt sér. Röskva mun áfram þrýsta á að Strætó BS bæti leiðarkerfi sitt og fjölgi ferðum sem stúdentar og starfsfólk HÍ geta nýtt sér, jafnt innanbæjar sem utanbæjar. Þá vill Röskva að framkvæmdum við Borgarlínu sé flýtt og strætó hefji ferðir innan háskólasvæðisins.

ÖRUGGARI GÖNGULEIÐIR
Röskva vill bæta lýsingu á gönguleiðum á háskólasvæðinu svo þær séu gerðar öruggari og greiðari. Þannig má jafnframt tryggja að vegfarendur komist hraðar á milli bygginga og þurfi síður á notast við ökutæki. Einnig þarf að fjölga gönguleiðum milli háskólabygginga og gangbrautum, til dæmis með því að setja gangbraut við hjólastíginn yfir Sæmundargötu. 

BÆTT AÐSTAÐA FYRIR HJÓLAREIÐAFÓLK
Röskva vill gera hjólreiðar að ákjósanlegum samgöngukosti fyrir stúdenta. Yfirbyggðar hjólageymslur ættu að vera til staðar við hverja byggingu ásamt aðgengilegri sturtuaðstöðu alls staðar á háskólasvæðinu. Einnig ætti að vera möguleiki á læstum hjólageymslum til að minnka líkur á stuldi. Einnig ætti að vera möguleiki á læstum hjólageymslum til að minnka líkur á stuldi. Stórbæta þarf aðgengi að hjólastígum á öllu háskólasvæðinu og halda þeim greiðfærum yfir vetrartímann. Til fyrirmyndar væri að hafa aðstöðu til viðhalds og viðgerða á hjólum á fleiri stöðum fleiri stöðum á háskólasvæðinu. Auk þess ættu hjólaskýli og geymslur að vera til staðar við Stúdentagarða en bæta þarf sérstaklega úr því í eldri byggingum.

FLEIRI GANGBRAUTIR
Röskva vill að fleiri gangbrautir séu á háskólasvæðinu. Við krefjumst þess að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda sé tryggt, til dæmis með því að setja gangbraut við hjólastíginn yfir Sæmundargötu. Röskva vill vera þrýstiafl til að tryggja að málum sé fylgt eftir og þau framkvæmd.

SAMNÝTING BÍLA SEM VISTVÆNN FERÐAMÁTI FYRIR STÚDENTA
Röskva leggur til að fyrirtæki með deilibílaþjónustu fjölgi vistvænum bílum fyrir háskólanema til skammtíma- og langtímaleigu. Röskva hvetur stúdenta til að nýta sér hóp á Facebook sem vettvang til deilibílaþjónustu. Einnig krefst Röskva þess að hleðslustöðvum fyrir rafmagnsbíla verði fjölgað á háskólasvæðinu.


- Loftslagsmál -

VIÐBRÖGÐ VIÐ HAMFARAHLÝNUN
Röskva krefst þess að Háskóli Íslands auki framboð á menntun til að vekja fólk til vitundar um hvernig mannauður og stofnanir geta haft áhrif og brugðist við hamfarahlýnun.

ÁFANGI Í SJÁLFBÆRNI
Röskva vill að komið verði á fót rafrænu skyldunámskeið í sjálfbærni sem kennt verði í grunnnámi þvert á svið sem yrði metið til eininga. Unnið var að slíku námskeiði fyrir nokkrum árum síðan og er grunnurinn því til staðar. Hægt væri að byggja nýtt námskeið á þeirri vinnu sem þegar hefur verið unnin.

HVATI FYRIR KENNARA
Röskva vill að farið verði í vinnu sem hvetur kennara til að innleiða umhverfismál og sjálfbærni í kennslu í áföngum sem eru nú þegar til staðar, t.d. í raunhæfum verkefnum.

NEYÐARÁSTAND Í LOFTSLAGSMÁLUM
Röskva krefst þess að Háskóli Íslandi fylgi fordæmi fjölmargra virtra háskóla erlendis og Stúdentaráði Háskóla Íslands og lýsi yfir neyðarástandi í loftslagsmálum. Samhliða því setji hann fram aðgerðaáætlun sem unnin yrði með aðkomu stúdenta.

EYRNAMERKT FJÁRMAGN
Röskva vill að háskólinn beiti sér fyrir því að fá viðbótar fjármagn sem yrði eyrnamerkt því að efla kennslu og rannsóknir á sviði sjálfbærni og loftslagsmála.