Verklagsreglur

Verklagsreglur um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og ofbeldi:

1. gr.
Markmið

Kynbundin og kynferðisleg áreitni, kynbundið og kynferðislegt ofbeldi (hér eftir nefnt brot) er með öllu óheimilt af hálfu meðlima Röskvu. Slíkt er hvorki liðið í samskiptum meðlima innbyrðis né í samskiptum þeirra við einstaklinga sem teljast ekki til meðlima samtakanna enda eigi samskiptin sér stað í tengslum við starfsemi Röskvu.

Markmið þessara verklagsreglna er að tryggja faglega meðferð mála, telji aðili samkvæmt 1. mgr. sig hafa orðið fyrir kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt er það markmið reglnanna að kynna fyrir meðlimum Röskvu þau úrræði sem standa þeim til boða innan Háskóla Íslands og þá hegðun sem ekki er liðin innan samtakanna. Afstaða Röskvu gegn kynbundinni og kynferðislegri áreitni, kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi er skýr, enda markmið samtakanna meðal annars að stuðla að kvenfrelsi og jöfnum rétti kynjanna á öllum sviðum háskólasamfélagsins.

2. gr.
Hugtök

Með hugtakinu kynbundin áreitni er átt við hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi. Áreitnin getur verið líkamleg, orðbundin eða táknræn. Eitt tilvik getur talist kynbundin áreitni ef það er alvarlegt.

Með hugtakinu kynferðisleg áreitni er átt við hvers kyns kynferðislega hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg. Eitt tilvik getur talist kynferðisleg áreitni ef það er alvarlegt.

Með hugtakinu kynbundið ofbeldi er átt við ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Með hugtakinu kynferðislegt ofbeldi er átt við brot gegn kynfrelsi einstaklings sem lýst eru refsiverð í XXII. kafla almennra hegningarlaga.

Með hugtakinu meðlimur Röskvu er átt við aðila sem uppfyllir skilyrði fyrir skráningu í félagatal Röskvu sem fram koma í 4. gr. laga samtakanna, óháð því hvort slík skráning hafi farið fram.

Með hugtakinu trúnaðarmenn Röskvu er átt við trúnaðarmenn þá sem kjörnir eru samkvæmt 20. gr. laga Röskvu.

Með hugtakinu stjórnarmeðlimir Röskvu er átt við þá sem teljast til stjórnar samtakanna samkvæmt 14. gr. laga Röskvu ásamt meðstjórnendum og nýnemafulltrúum stjórnar.

Með hugtakinu aðilar máls er átt við einstakling sem talinn er hafa brotið af sér og einstakling sem talinn er hafa orðið fyrir broti.

Með hugtakinu stórfundur er átt við fund þann sem mótar stefnu Röskvu í öllum helstu málum samkvæmt 17. gr. laga samtakanna.

3. gr.
Fagráð og trúnaðarmenn Röskvu

Hver sem vill bera fram kvörtun vegna brots sem viðkomandi telur sig hafa orðið fyrir af hálfu meðlims Röskvu eða vill tilkynna brot sem viðkomandi telur sig hafa rökstuddan grun eða vitneskju um, skal snúa sér til fagráðs Háskóla Íslands um viðbrögð við kynbundinni eða kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Meðlimur Röskvu getur alltaf leitað til annars tveggja trúnaðarmanna Röskvu. Ákveði aðili að tilkynna mál til trúnaðarmanns skal trúnaðarmaður umsvifalaust vísa erindinu til fagráðsins til faglegrar meðferðar og skal hann ávallt gæta fyllsta trúnaðar.

4. gr.
Meðferð og úrlausn mála

Á meðan mál er í skoðun hjá fagráðinu skal reynt að ná sáttum um vinnutilhögun aðila máls þar sem við á í samráði við fagráðið og stjórn Röskvu. Sá sem grunaður er um brot skal gert að víkja úr starfi Röskvu meðan mál er til meðferðar. Óheimilt er að flytja einstakling sem hefur kvartað eða orðið fyrir broti til í starfi samtakanna vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni eða ofbeldis, nema viðkomandi óski þess.

5. gr.
Kynning

Stjórn Röskvu og trúnaðarmönnum er skylt að kynna verklagsreglur þessar fyrir meðlimum samtakanna. Slík kynning skal fara fram á stórfundum sem og ferðum sem farnar eru á vegum Röskvu, svo sem haustferð og listaferð. Jafnframt skulu reglurnar hafðar sýnilegar í kosningamiðstöð Röskvu og gerðar aðgengilegar á vefsíðu samtakanna.

6. gr.
Gildistaka og breytingar

Verklagsreglur þessar öðlast gildi við staðfestingu stórfundar. Breytingar á þeim þarf að samþykkja á stórfundi.