Hlaðvarp Röskvu

Hlaðvarp Röskvu:

Hlaðvarp Röskvu er í umsjón málefnanefndar og er ætlað að miðla upplýsingum um hagsmunamál stúdenta á skemmtilegan og aðgengilegan hátt. Fyrsti þátturinn kom út í september 2019 og hefur nú lokið sinni 2. þáttaröð. Núverandi þáttastjórnandi er Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir. Hlaðvarpið getið þið nálgast hér og á Spotify.
Mynd: Alda Björk
Stef: Sigurhjörtur Pálmason.


Þáttaröð 2:
2020-2021

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, fyrrverandi ritari og kosningastýra Röskvu, er þáttastjórnandi annarar þáttaraðar.2.4 Lánasjóðurinn og MSN

Sara Þöll Finnbogadóttir, lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands, ræðir lánasjóðsmál í þætti dagsins. Lánasjóðurinn hefur tekið miklum breytingum undanfarið ár og ber nú nafnið Menntasjóður Námsmanna, MSN. Lánasjóðsmál, staða stúdenta og helstu baráttumál Stúdentaráðs hvað lánasjóðsmál varðar eru rædd í þaula.2.3 Fjármögnun háskólans og háskólaráð

Í þessum þætti ræða Isabel Alejandra Díaz, forseti SHÍ, og Jessý Jónsdóttir, nefndarfulltrúi í kennslumálanefnd Stúdentaráðs, sem báðar sitja í háskólaráði fyrir hönd stúdenta málefni háskólaráðs. Farið er um víðan völl, meðal annars rætt um skrásetningargjöld, geðheilbrigðismál, fjármögnun háskólans, rætur þeirra í Röskvu og fleira.2.2 Aðgengi í háskólanum

Í þessum þætti ræða þau Margrét og Mars um aðgengi innan háskólans, bæði líkamlegt- og andlegt aðgengi, hvað hafi gengið vel og hvað megi betur fara.2.1 Framtíð háskólasvæðisins

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir, þáttastjórnandi annarrar seríu Hlaðvarps Röskvu, fær til sín góða gesti til að ræða framtíð háskólasvæðisins. Þau Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi Pírata og formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, og Ari Guðni Hauksson, Röskvulið, sagnfræðingur og fulltrúi stúdenta í skipulagsnefnd Háskólaráðs verða gestir Hallgerðar að þessu sinni og fara þau vítt og breytt í umræðu sinni um framtíð háskólasvæðisins.Þáttaröð 1:
2019-2020

Isabel Alejandra Díaz, fyrrum varaforseti Röskvu og varafulltrúi í Stúdentaráði, er þáttastjórnandi fyrstu þáttaraðar.19. Af hverju Röskva?

Eyrún Baldursdóttir oddviti Röskvu er síðasti gestur fyrstu seríunnar. Í þættinum dregur hún saman vinnu Röskvu í bæði innra og ytra starfinu.

Listaferð Röskvu er næstkomandi laugardag, 22. febrúar og hvetjum við öll til þess að mæta og taka þátt í að mynda nýju stefnuna okkar. Linkur að viðburðinum hér: https://www.facebook.com/events/215365426175790/

@roskvaroskva á Facebook, Instagram og Twitter.18. Aktívistar: umhverfis- og loftlagsmál

Júlía Sif Liljudóttir og Aðalbjörg Egilsdóttir ræða stærsta vandamál okkar tíma. Júlía, einn stofnandi Veganistur, ræðir veganisma og tengingu þess lífsstíls við umhverfismál og það sem einstaklingar geta gert til þess að sporna gegn hættunni. Aðalbjörg segir frá þátttöku sinni í COP25, Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, og Loftslagsverkföllunum. Rætt er í þaula stöðu Íslands í þessum efnum sem viðmælendum og þáttastjórnanda þykir því miður ekki vera nógu góð.17. Spurt og svarað

Brjótum þetta aðeins upp!
Vaka Lind Birkisdóttir fyrrverandi varaforseti og Þórhildur Hlín Oddgeirsdóttir fyrrverandi kynningarstýra Röskvu svara ýmsum spurningum úr spurningaboxi Röskvu á Instagram.

Fullkominn þáttur í lærdómspásuna ef þú vilt vita hvað er átt við með „íslenskir kettir“, hvort að ESB sé það sem Íslendingar þurfa, hvað á sér stað í kosningabaráttunni eða ef þú horfir á Netflix og vantar uppástungur að góðum þáttum.16. Aktívistar: mannréttindi

Dóróthea Magnúsdóttir oddviti háskólafélags Amnesty og Lenya Rún ritari Röskvu eru viðmælendur þessa vikuna. Af hverju eru stúdentar að taka afstöðu til mála sem nær utan háskólasamfélagsins?

Lenya útskýrir hugsunina á bakvið yfirlýsingu Röskvu varðandi stöðu Kúrda í norðausturhluta Sýrlands, sem Dóróthea tekur tvímælalaust undir, enda koma sambærileg mál inn á borði Amnesty sem háskólafélagið tekur virkan þátt í að vekja athygli á.15. Nostalgía: Katrín Jakobsdóttir

Katrín Jakobsdóttir var virk í Röskvu á árunum 1998-2001. Hún útskrifaðist úr Háskóla Íslands árið 1999 með BA-próf í íslensku og frönsku sem aukagrein. Katrín sat í Stúdentaráði og Háskólaráði á árunum 1998-2000 og var ritstjóri Stúdentablaðsins 2000-2001. Katrín talar um ýmislegt skemmtilegt, alveg frá BA ritgerðinni og bókinni Glæpurinn sem ekki fannst sem var byggð á henni, til áranna sem hún var mennta- og menningarmálaráðherra 2009-2013 og LÍN frumvarpið sem hún lagði fram þá. Skemmtilegast var þó að rifja upp starf Röskvu, baráttumálin, mótmælin, kosningabarátturnar og sigrana.14. Aktívistar: femínismi og hinsegin mál

Valgerður Hirst Baldurs forseti Q-félags hinsegin stúdenta og Margrét Steinunn Benediktsdóttir forseti feminístafélags HÍ, kíktu í heimsókn til þess að segja frá starfsemi félaganna. Rætt er um fræðslustarfsemi, viðburði á döfinni, markmið, árangur ofl.13. Tanngreiningar

Jóna Þórey Pétursdóttir forseti Stúdentaráðs útskýrir tanngreiningarmálið umdeilda. Hún segir frá afstöðu Stúdentaráðs og áskorun þess til Háskólaráðs um að háskólinn slíti samningi sínum við Útlendingastofnun og hætti tanngreiningum..12. Verkfræði- og náttúruvísindasvið

Ásmundur Jóhannsson og Jessý Jónsdóttir stúdentaráðsliðar á Verkfræði- og náttúruvísindasviði eru gestir vikunnar. Þau ræða ýmislegt eins og brottfall úr námi, skort kvenkyns fyrirmynda á sviðinu, hitabeltið í Öskju, starf nemendafélaga og nefnda SHÍ. Einnig er fjallað um starfsemi umhverfis- og samgöngunefndar og félagslífs- og menningarnefndar.11. Nýtt lánasjóðsfrumvarp

Gestur vikunnar er Marinó Örn Ólafsson lánasjóðsfulltrúi SHÍ. Hann útskýrir hvernig námslánakerfið virkar og segir vandlega frá nýja lánasjóðsfrumvarpinu sem allir eru að tala um. Um er að ræða eitt stærsta hagsmunamál stúdenta og því mikið fagnaðarefni að það sé loks komið aftur á dagskrá stjórnvalda. Það eru þó nokkur atriði sem vert að skoða og fjallar Marinó um þau og kröfur stúdenta í samræmi við umsögn SHÍ.10. Heilbrigðisvísindasvið

Freydís Þóra Þorsteinsdóttir og Vigdís Ólafsdóttir stúdentaráðsliðar á Heilbrigðisvísindasviði kíktu til Isabel og fóru yfir stefnumál Röskvu á fyrrnefndu sviði. Má þar nefna áframhaldandi pressu á upptökur fyrirlestra, hinseginfræðslu nemenda og kennara, álag í klínísku námi og mætingarskyldu, nýtt hús Heilbrigðisvísindasviðs og rafrænt prófahald.9. Félagsvísindasvið

Róbert Ingi Ragnarsson og Viktor Örn Ásgeirsson stúdentaráðsliðar á Félagsvísindasviði eru gestir að þessu sinni. Þeir spjalla við Isabel um stefnumál Röskvu á sviðinu og fjalla m.a um sjúkra- og endurtektarprófin, nýja hnappinn inn á lesstofuna í Gimli, breytingarnar í almennri lögfræði, hugmyndir að bættri lærdómsaðstöðu og fulltrúaráðið.8. Nostalgía: Atli Bollason

Atli Bollason var mjög virkur Röskvuliði alla sína háskólagöngu en hann útskrifaðist frá Háskóla Íslands árið 2007 með BA-gráðu í almennri bókmenntafræði. Atli sat í Stúdentaráði 2005-2006 og Alþjóðanefnd SHÍ, var varaformaður Stúdentaráðs 2006-2007 og ritstjóri Stúdentablaðsins 2007-2008. Atli hefur starfað sem tónlistargagnrýnandi, laga- og textahöfundur, við auglýsingagerð, skipulagningu RIFF og verið greinarhöfundur fyrir m.a. Reykjavík Grapevine, auk annarra verkefna. Hann sest niður með Isabel og segir frá því þegar hann slökkti á ljósum borgarinnar eitt haustkvöld svo að norðurljósin sæust, háskólaárunum í innan raða Röskvu og einblínir á mikilvægi þess að vera róttækur í hagsmunabaráttu stúdenta.7. Menntavísindasvið

Isabel fær til sín stúdentaráðsliða af Menntavísindasviði, þau Andreu Ósk Sigurbjörnsdóttur og Sigurð Vopna Vatnsdal. Þau segja frá stefnumálum Röskvu á sviðinu, því sem hefur komist í gegn og því sem þau stefna að í Stakkahlíðinni. Má þar m.a. nefna nýtt lesrými, aðstaða námsráðgjafa loks í Stakkahlíð, rafpróf og tillögur lagðar fram í Stúdentaráði. Þess má geta að í ár var það í fyrsta skipti sem Röskva vinnur Menntavísindasvið og er með forsæti í sviðsráði.6. Hugvísindasvið

Ragnhildur Þrastardóttir og Þórdís Dröfn Andrésdóttir, stúdentaráðsliðar á Hugvísindasviði, kíkja til Isabel og ræða stefnumál Röskvu á fyrrnefndu sviði. Farið er m.a. út í Hús íslenskra fræða, reiknilíkanið fræga, Veröld, þarfagreiningu í Árnagarði, ritstjórn Röskvu og Stúdentablaðið.5. Útskrifaðir Röskvuliðar

Gestir Isabel þessa vikuna eru Guðný Ljósbrá Hreinsdóttir samskiptafulltrúi SHÍ fyrir Októberfest og Daníel G. Daníelsson verkefnastjóri hjá Icelandic Startups. Þau segja frá embættunum sem þau gegndu í stjórn Röskvu 2017-2018. Rifja einnig upp setu í nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd og félagslífs- og menningarnefnd SHÍ, og tala um Októberfest, Gulleggið, samfélagsmiðla og fleira.4. Fjölskyldumál

Anna Margrét Arnarsdóttir, fulltrúi Röskvu í Fjölskyldunefnd SHÍ, sest niður með Isabel til þess að ræða málefni fjölskyldna innan háskólans, markmið nefndarinnar og stefnu Röskvu í þeim efnum.3. Fyrrum forsetar Stúdentaráðs

Ragna Sigurðardóttir og Elísabet Brynjarsdóttir, forsetar Stúdentaráðs síðustu tveggja ára, mæta í stúdíóið til Isabel og ræða meðal annars Stúdentaráð, forsetaembættið, konur í leiðtogastöðum og árangur Röskvu síðan Röskva tók við skrifstofunni.2. Röskva í Stúdentaráði

Isabel fær oddvita Röskvu í heimsókn, hana Eyrúnu Baldursdóttur, til þess að ræða stefnu og langtímamarkmið Röskvu, Stúdentaráð, kosningar, réttindaskrifstofuna og fleira.1. Hvað er Röskva?

Isabel fær til sín forseta og varaforseta Röskvu, þær Rebekku Karlsdóttur og Ellen Geirsdóttur Håkansson, sem útskýra innra starf fylkingarinnar og hvetja nýja nema jafnt sem eldri til þess að taka þátt.Kynningarþáttur

Isabel Alejandra Díaz þáttastjórnandi, segir frá tilgangi hlaðvarpsins, hverju megi búast við af því í vetur og spjallar við Guðjón Björn, formann Röskvu 2017-2018, um fyrstu kynni þeirra beggja á Röskvu.Síðast uppfært 4. apríl 2021